139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég var búin að biðja um andsvar áður en hv. þingmaður nefndi mig í annars prýðilegri ræðu, einni þeirri skemmtilegustu sem ég hef hlustað á við alla þessa fjárlagaumræðu. Mér fannst ég geta tekið undir margt sem hún sagði og ég vona einfaldlega án þess að ég fari út á allt of hálan ís að við sameinumst um það stóra verkefni sem mér finnst flestir vera að tóna sig inn á, það að breyta vinnuaðferðunum í tengslum við fjárlagagerð, m.a. í þeim atriðum sem hv. þingmaður kom inn á um úthlutun fjármuna frá fjárlaganefnd.

Ég sagði fyrir nokkrum dögum — ég ætlaði reyndar ekki að koma inn á það en ég ætla að fara samt stutt inn á það núna — að Suðvesturkjördæmi liði fyrir návígið við höfuðborgina. Ég hefði líka getað sagt að við liðum fyrir það að vera nálægt landsbyggðinni. Ef hv. þingmaður skoðar úthlutanir, m.a. fjárlaganefndar, sér hún að höfuðborgin fær mun meira úthlutað, landsbyggðin náttúrlega miklu meira, en suðvesturhornið fellur milli skips og bryggju í þessu efni. Ég get m.a. bent á fornleifauppgröft á Mosfellssvæðinu, á Hrísbrú, sem hefur ekki fengið stuðning nema þá í gegnum ráðuneytið á sínum tíma. Það er samt önnur saga.

Hv. þingmaður kom inn á 10% framkvæmdaframlagið til höfuðborgarsvæðisins, það var komið upp í 20% á árinu 2008, hrapaði niður í 10% árin 2008 og 2009, og nú spyr ég hvort hún telji þetta ásættanlegt í ljósi þeirra miklu samgönguframkvæmda sem þarf að fara í á suðvesturhorninu. Við vitum að menn ætla að fara af stað með öðrum hætti en í ljósi þeirra framlaga sem hafa verið sett á suðvesturhornið spyr ég hvort hv. þingmaður sem er frá Reykjavík telji þetta ásættanlegt.