139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hræddur um að ef menn hefðu hagað sér eins og liðsmenn núverandi ríkisstjórnar og stjórnarliðsins í annarri öðruvísi samsettri ríkisstjórn hefði það vakið mikla athygli og umræðu og menn ekki komist upp með það á sama hátt og nú. Það er varla fréttnæmt lengur að menn séu í hverju málinu á fætur öðru að spila í báðum liðum samtímis ef svo má segja. Með því á ég ekki bara við að ég líti á þetta sem annars vegar lið stjórnarandstöðu og stjórnar hins vegar heldur lið þeirra sem vilja gera einhvern tiltekinn hlut og lið þeirra sem eru á móti þeim sama hlut. Menn komast með öðrum orðum upp með að hafa margar skoðanir á sama málinu.

Ég held að það sé mjög óheppilegt við þær aðstæður sem við erum í núna að menn komist í rauninni hjá því að taka pólitíska ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut og geti alltaf og endalaust, núna tveimur árum eftir hið margumrædda efnahagshrun, afsakað sig með því að vísa bara í að hér hafi orðið hrun. (Forseti hringir.)