139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ræðumenn hér áðan, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, höfðu nokkrar áhyggjur af vinnunni við þetta fjárlagafrumvarp og hvernig það hefði gengið til. Ekki skal lítið gert úr því að mikið annríki hefur verið og í mörg horn að líta. Verið er að glíma við óvenjulegar aðstæður. Sé hv. þm. Einar K. Guðfinnsson reyndur í þessum málum getur ræðumaður líklega sagt svipað. Ég hef marga fjöruna sopið og ég hef nú séð ýmislegt um mína daga sem gerir það að verkum að ég hef alveg ágætissamvisku og -sannfæringu fyrir því að við séum ekki að komast að lakari eða verr undirbúinni niðurstöðu en oft og iðulega áður þótt við auðveldari aðstæður hafi verið.

Það er líka spurning hvernig útkoman verður. Ef ég man rétt voru svipaðar ræður fluttar í fyrra um gildandi fjárlög. Nú er að koma á daginn, þegar komið er inn á tólfta mánuð þessa árs, að fjárlögin halda mjög vel. Við erum fullkomlega á áætlun á báðum hliðum, tekjuáætlunin stenst og aðeins betur miðað við tölur eftir ellefu mánuði og við erum vel innan útgjaldaheimilda þannig að sennilega hefur ekki í langan tíma náðst jafngóður árangur hvað það snertir. Það er það sem skiptir að lokum máli þegar upp er staðið. Reynast fjárlögin og eftirfylgni þeirra sá grunnur að styrkri fjármálastjórn sem þörf er á? Það tel ég að sé að gerast í ár og vonandi tekst jafn vel til á næsta ári.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um niðurgreiðslu húshitunar og þá breytingu að falla frá endurgreiðslum á virðisaukaskatti er það rækilega útlistað hér í texta með breytingartillögunni. Sú tala sem kemur inn á móti er reiknuð út af iðnaðarráðuneytinu og rækilega er útskýrt af hverju hún er nægjanleg til þess að endurgreiða kostnað beint þannig að ekki komi til hækkana. Það er einfaldlega vegna þess að eldra kerfið var orðið ónothæft og fengu þar aðilar niðurgreiðslur sem alls ekki áttu rétt á þeim miðað við úrelt ákvæði um 14% virðisaukaskatt á sölu (Forseti hringir.) á heitu vatni en ekki 7%. Þetta er rækilega útskýrt þannig að ég tel mig hafa staðið fullkomlega við þau fyrirheit sem ég gaf með þessu, að þetta eigi ekki að leiða til kostnaðarhækkana hjá notendum.