139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við erum nú stödd í 3. umr. um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og það er alveg stórmerkilegt hvernig þetta hefur farið. Ég ætla að reyna að vera jákvæður en ég neyðist til að vera neikvæður öðru hverju þannig að ég ætla að reyna að skipta þessu upp.

Í fyrsta lagi virðist ríkisstjórnin ekki vera hrifin af samráði. Hún fer í gífurlega mikinn niðurskurð án þess að tala við kóng eða prest að því er virðist. Hún talar ekki við sjúkrahúsin úti á landi, hún talar yfirleitt ekki við nokkurn mann, allir eru voða hissa þegar þetta kemur fram. Hún talar heldur ekki við þingmennina í stjórnarmeirihlutanum, þeir koma alveg af fjöllum.

Ég man þá tíð, frú forseti, þegar við vorum í meiri hluta. Maður fór út á land einhvern tíma í ágúst, hitti fjármálaráðherra og ráðgjafa hans úr ráðuneytunum og aðra og þarna fóru fram heitar umræður um væntanleg fjárlög lungann úr deginum ef ekki í tvo daga. Maður var kasuppgefinn eftir fundina af því að átökin voru svo mikil um hvað mætti gera og hvað mætti ekki gera. Þarna keyrðu menn sig saman. Þetta heitir samráð. Ráðherra var síðan falið að útfæra fjárlagafrumvarpið í ljósi fundanna og þetta var eitthvað sem allir vissu um, allir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að minnsta kosti. Svona voru vinnubrögðin.

Hér virðist vera að meiri hlutinn viti þetta ekki, að sjálfsögðu ekki fólkið úti á landi en margt í frumvarpinu snertir það, og ekki einu sinni ríkisstjórnin. Meira að segja ráðherrar hlupu út undan sér með stuðning við fjárlagafrumvarpið.

Frú forseti. Í flestum löndum er talið að það að styðja ríkisstjórn þýði að styðja fjárlagafrumvarp. Það er bara þannig. Kannski ekki í hverju einasta atriði, ekki hverja smáfjárveitingu til að byggja einhvern hænsnakofa, en í meginatriðum eiga menn að standa á bak við fjárlagafrumvarpið. Það þýðir að styðja ríkisstjórnina. Þeir sem ekki styðja fjárlagafrumvarpið styðja ekki ríkisstjórnina, það er svo einfalt. En hér virðist hver á fætur öðrum hlaupa út undan sér. Ég vil því heldur kalla mál nr. 1 sem var dreift 1. október drög að fjárlagafrumvarpi. Síðan hafa verið gerðar miklar breytingar á því.

Þetta virðist vera það sama og gerðist þegar menn samþykktu Icesave blindandi í báðum stjórnarflokkunum. Menn höfðu ekki áttað sig á hvað gerðist, að minnsta kosti ekki hv. þingmaður sem hér gengur út, hann vissi ekkert um hvað þetta snerist. Hið sama má segja um Evrópusambandið, þar voru líka nokkrir ráðherrar í ríkisstjórninni á móti. Það var eins og þeir væru ekki meðvitaðir um hvað væri að gerast. Engin samræming, ekkert samráð og ekkert talað um eitt eða neitt.

Það sem menn gera núna og hafa gert í tví- eða þrígang er að hækka skatta og skera niður. Fyrst hækkuðu þeir skattana mikið og skáru lítið niður, nú hækka þeir skattana lítið og skera mikið niður. Þeir geta náttúrlega ekki hækkað skattana meira vegna þess að þanþolið er ekki meira hjá fjölskyldum og löskuðum fyrirtækjum landsins. Þeir ætla að skera niður.

Ég tel í sjálfu sér að mestu mistök Sjálfstæðisflokksins á stjórnartíð hans hafi verið að láta velferðarkerfið blása svona út, það má nánast segja að hann hafi verið velferðarflokkur, þvílíkt óx velferðarkerfið á hans dögum. Að sjálfsögðu þarf að skera þetta mikla bákn niður en það er ekki gott að gera það í miklu atvinnuleysi. Þegar við skerum ríkisbáknið niður leiðir það alltaf til þess að fólk missir vinnuna. Laun eru nefnilega 70% af ríkisútgjöldum. Ef við ætlum að lækka ríkisútgjöldin verðum við að skera niður laun. Það þýðir að fólk missir vinnuna eða alla vega hluta af henni. Ég hef lagt til að menn minnki starfshlutfall hjá fólki frekar en að segja nokkrum alveg upp starfi.

Hvert fer þetta fólk, frú forseti? Hvar fær það vinnu? Hvar fær það vinnu í þeirri stöðnun og atvinnuleysi sem ríkir alls staðar? Það fer náttúrlega á atvinnuleysisbætur. Það fer sem sagt af launaskrá hjá ríkinu yfir á bætur hjá ríkinu með miklu lægri kjör, borgar minni skatta og hefur mikið lakari lífskjör en kostar ríkissjóð eftir sem áður. Þetta er ekki beint gæfulegt.

Þá ætla ég að fara yfir í jákvæða hlutann. Nú er enginn til að hlusta, frú forseti.

(Forseti (RR): Jú.)

Já, frú forseti náttúrlega og svo formaður Framsóknarflokksins en fleiri mundu gjarnan vilja heyra eitthvað jákvætt. Þeir eru ekki viðstaddir. Það er kannski spurning hvort maður geti fengið hæstv. fjármálaráðherra í salinn svo að hann geti hlustað á jákvæðu hliðarnar. Nú ætla ég að ræða um eitthvað jákvætt, mundi ég vilja segja við hæstv. fjármálaráðherra.

Það er margt jákvætt í umhverfinu. Vextir hafa lækkað úti í heimi. Þar er heilmikið að gerast, m.a.s. eru mörg önnur lönd komin í verri stöðu með gjaldmiðla sína en Ísland. Lánshæfismat Íslands hefur batnað, önnur lönd eru farin að fara upp fyrir okkur og menn eru hættir að líta á Ísland sem verst stadda bróðurinn í Evrópu. Þetta er jákvætt. Það er reyndar ekki jákvætt að Grikkland og Spánn og Írland séu í vandræðum en miðað við okkur hlutfallslega er þetta jákvætt. Svo veltir maður náttúrlega því fyrir sér, frú forseti, hvort lifi lengur, krónan eða evran. Sú staða er komin upp.

Vextir hafa líka lækkað hér á landi og Seðlabankinn hefur náð góðum árangri í að ná vöxtunum niður í það sem þeir eru komnir í, þetta eru orðnir allt að því skaplegir vextir, og verðbólgan er á góðri niðurleið þannig að þetta er allt í fínu lagi. Vöruskiptajöfnuðurinn, frú forseti, hann gleður mig í hverjum einasta mánuði, ekki spurning. Það er náttúrlega fyrst og fremst álið sem heldur honum uppi. Ég gleðst sérstaklega yfir Kárahnjúkavirkjun sem ég stóð nú að á sínum tíma, hún bjargar vöruskiptajöfnuðinum ásamt með sjávarútveginum, sem öllum virðist vera í nöp við og reyna að eyðileggja. En ég ætla ekki að vera neikvæður.

Svo er lækkandi atvinnuleysi, frú forseti. Það er líka jákvætt ef ekki væri fyrir einn galla. Gallinn er nefnilega sá að við flytjum út atvinnuleysi, þess vegna er atvinnuleysið svo lítið. Nú er ég farinn að vera neikvæður aftur en ég neyðist til að vera neikvæður öðru hverju. (Gripið fram í: … brottflutningurinn er núna …) Já, já, en samt sem áður er mjög mikill brottflutningur. Þess vegna er atvinnuleysið svona lítið. Fólk leitar eftir vinnu til útlanda. Um 22.000 störf hafa tapast og endað í atvinnuleysi, 12.000 manns eða 13.000 manns. Sumir hafa endað í háskólunum þar sem nemendum hefur fjölgað mikið. Það er ágætt, það er fínt ef fólk fer að mennta sig þegar það missir vinnuna. Síðan flyst atvinnuleysið til útlanda, ætli það sé ekki tugur þúsunda sem kominn er til útlanda? (Gripið fram í.) Eitthvað af útlendingum en töluvert mikið af Íslendingum líka. Og það er mjög hættulegt, frú forseti, það er eitt af ógnvænlegu merkjunum sem ég sé. Ákveðin ógnvænleg teikn eru nefnilega á lofti. Hver eru þessi ógnvænlegu teikn? Það er brottflutningurinn, fólkið sem flyst út kemur ekki allt til baka þó að okkur takist að búa til störf. Það situr um kyrrt úti. Hvaða fólk fer út? Það er frekar fólk á ungum aldri sem hefur klárað háskólanám eða iðnnám og fer til útlanda af því að þar eru hærri laun og jákvæðari og bjartsýnni framtíðarsýn. Hér er nefnilega mjög slæm framtíðarsýn. Það er mjög skaðlegt fyrir þjóðina að missa aðalauðlind sína sem er mannauðurinn. Allar hinar auðlindirnar blikna við hliðina á mannauðnum. Ef við missum 10, 20, 30 þúsund manns til útlanda er það mikil blóðtaka fyrir landið. Ég ætla að vona að það verði ekki.

Svo er annað merki mjög hættulegt, kannski ekki alveg eins hættulegt og brottflutningurinn en það er minnkandi fjárfesting. Fjárfesting skapar störf á meðan á henni stendur við að byggja upp en hún skapar líka störf eftir að henni er lokið, þ.e. ef fjárfestingin er skynsamleg, sem við vonum að hún sé. Minnkandi fjárfesting þýðir því að atvinnu vantar núna en líka í framtíðinni og það er mjög hættulegt. Menn eiga því að gera allt til að auka fjárfestingu. Síðan hafa tekjur af vissum skattstofnum hreinlega minnkað, eins og af tekjum almennings, þar eru skatttekjurnar að lækka. Þetta eru allt slæm teikn.

Hvað gerum við til þess að auka fjárfestingu, hvað mundi ég gera? Ég mundi lækka skatta á fjárfestingu. Ég mundi lækka skatta á hagnað fyrirtækja, lækka skatta á fjármagnstekjur og ég mundi reyna að auka traust manna á hlutabréfum. Atvinna myndast ekki öðruvísi en með því að fjárfesta og fjárfesting verður ekki til nema með áhættufé eða lánsfé og hvort tveggja hefur ríkisstjórnin ráðist á.

Við skulum hugsa okkur að við ætlum að fjárfesta í hlutabréfum, á hvað lítum við? Fjármagnstekjuskattur hefur hækkað úr 10, 15, 18 í 20%. Hvar endar hann? Bind ég fé mitt til 20–30 ára í hlutabréfum við þessi teikn? Nei.

Skattur á hagnað fyrirtækja? 15, 18, 20%, nei. Skattur á hagnað fyrirtækja minnkar tekjustrauminn frá fjárfestingunni og lækkar verð hlutabréfa því að verð hlutabréfa er ekkert annað en núvirðing á tekjustofnum. Þegar við skattleggjum tekjustofninn og minnkum hann minnkar verðmæti hlutabréfa. Þetta er hægt að reikna upp á krónur og aura.

Það sem ég óttast núna er að sú stefna ríkisstjórnarinnar að skattleggja og skera niður og huga ekki að því að stækka kökuna en hún virðist af einhverjum ástæðum vera andsnúin því, allar hennar aðgerðir virðast stefna að því að minnka kökuna. Sú stefna leiðir til þess að til verður spírall skatta og niðurskurðar, brottflutnings: Meiri skattar, meiri niðurskurður, brottflutningur, meiri skattar, meiri niðurskurður og brottflutningur. Svona lendum við í spíral sem getur endað í langvarandi stöðnun og þá er ég að tala um 10–20 ár. Þetta er ekkert voða bjartsýnt, ég verð einhvern veginn að verða bjartsýnn aftur því að þetta er orðið niðurdrepandi.

Í drögum að fjárlagafrumvarpi sem lögð voru fram við 1. umr. 1. október var talað um 36 milljarða halla. Við 2. umr. varð hallinn 30 milljarðar. Nú erum við að sjá 37 milljarða halla. Inn í þetta vantar ýmsa þætti og vafaþættir eru mjög miklir. Til dæmis 6 milljarðar í vegagerð. Ég fór í gegnum það í dag og þetta er ekkert annað en veðsetning í sköttum framtíðarinnar. Ef hægt er að leggja vegatolla á með þessum hætti eru það skattar sem fjármálaráðherrar framtíðarinnar mundu gjarnan vilja setja á. En við erum búin að veðsetja skatta framtíðarinnar. Ég held að þetta sé ekki heimilt, frú forseti, ekki heimilt. Það að taka veð í þessu, eins og menn ætla sér að gera, er svipað eins og útrásaravíkingarnir gerðu út um allt. Þeir tóku nefnilega veð í verðlausum eignum. Mér sýnist að menn séu farnir að leika þann leik, því miður. Ég stakk upp á því í fjárlaganefnd að menn skyldu bara stofna hlutafélag um menntakerfið og lána þeim svo fyrir rekstrinum og lofa því að þeir fengju skólagjöld upp á eina milljón með nemanda frá ríkinu eftir fimm ár og þaðan í frá. Þá kostar menntakerfið ekki neitt. Er þetta ekki glimrandi góð hugmynd, frú forseti, er þetta ekki eitthvað sem við ættum að gera? Menn eru að gera margt sem mér líkar ekki.

Svo er það 6 milljarða skattur á lánafyrirtækin. Hann er einhvers staðar í stjörnunum, ég hef ekki séð neitt um hvernig það verður gert, hvort til sé eitthvert samkomulag, hvort það sé skuldbindandi, hvort fyrirtækin taki skattinum fagnandi þegar hann kemur o.s.frv. Þetta eru miklir peningar. Og ef við næðum ekki þessum 12 milljörðum þá erum við allt í einu að tala um 49 milljarða eða 50 milljarða halla.

Síðan vantar náttúrlega það sem við ætlum að ræða á morgun. Stjórnin hefur nefnilega þá stefnu að gera samning um Icesave. Fyrir ári var hún búin að undirrita samkomulag en ekki bara það, hún var búin að leggja fram frumvarp og stjórnarfrumvarp sem maður átti von á að yrði samþykkt og varð líka samþykkt. Ekki var orð um þetta í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það þótti mér ein undarlegasta ráðstöfun sem ég hef séð. Í fjáraukalögum áttu að sjálfsögðu að standa 700 milljarðar sem ríkisábyrgð og auk þess 40 milljarðar fyrir vaxtagreiðslum sem féllu til á árinu 2009. Auk þess áttu að liggja fyrir 40 milljarðar fyrir 2010 í vaxtagreiðslur. En þetta var hvergi til.

Svo felldi þjóðin þetta, frú forseti, sem betur fer og forsetinn, þökk sé honum. Sem betur fer felldi þjóðin þetta. Ekkert gerðist með fjárlögin, það myndaðist ekki allt í einu hagnaður vegna þess að þetta hafði hvergi verið fært inn í fjárlögin þó að stjórnarskráin segi það. Ég held að menn þurfi að kíkja á hvað þeir eru að gera þegar þeir sverja eið að stjórnarskránni.

Þetta er nú þetta dapurlega. Nú, frú forseti, ætla ég að fara út í það jákvæða. Það hefur nefnilega komið fram breytingartillaga við fjárlögin frá 1. minni hluta fjárlaganefndar. Hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson, Ásbjörn Óttarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætla sér að koma með breytingartillögu við fjárlögin og þetta eru í rauninni ný fjárlög, frú forseti. Ég stend að þessu og styð félaga mína í fjárlaganefnd fullkomlega í að koma með nýtt fjárlagafrumvarp. (Gripið fram í.) Nei, það var búið að tilkynna það löngu áður og þetta var svo sem gert fyrir ári líka. En nú er þetta betur útfært. Ef skattlagning á séreignarsparnað yrði setti inn mundi það gefa ríkinu 80 milljarða og sveitarfélögunum 40. Það veitir nú ekki af á þeim bæ, frú forseti, ekki veitir sveitarfélögunum af að fá 40 milljarða núna til að borga allar sundlaugarnar og öll gengistryggðu lánin sem þau skulda. Ég mundi vilja að þau byrjuðu á því að borga niður lán og síðan ættu þau að lækka útsvarið ef þau eru búin að borga allar skuldir sínar. Ég veit ekki hvað þetta dugar langt, það er örugglega mismunandi eftir sveitarfélögum.

Þetta er jákvætt. Hér kemur nýtt fjárlagafrumvarp og hvað hefur það í för með sér fyrir fjárlagafrumvarp ársins þegar það verður samþykkt, sem ég reikna nú með? Þá er afgangurinn kominn í núll. Halli ríkissjóðs fer úr 37 milljörðum í núll. Þá mundi mér nú létta, frú forseti, af því að mér er annt um ríkissjóð og annt um stöðu íslenska ríkisins. Auðvitað munu sumir segja: Þarna takið þið séreignarsparnaðinn. En það er eign sem ríkissjóður á og hann tekur hana til sín. Það breytir engu fyrir sparifjáreigendurna í séreignarsjóðunum og ekki heldur fyrir sjóðina því hugmyndin er að þeir gefi út skuldabréf til að greiða þetta, þeir þurfa ekki að borga neitt „cash“. Það yrðu aldeilis góð skuldabréf, frú forseti, ég hugsa að þau yrðu betri en ríkissjóður, skuldabréf sem lífeyrissjóður gefur út sem skuldar ekki neitt, á bara eignir. Ég mundi segja að fátt sé öruggara í heiminum. Þau væru bara með lágri ávöxtun sem ríkissjóður gæti notið.

Þetta síðasta er allt mjög jákvætt og ég býst við því að menn muni samþykkja þetta. Hvað mundi þetta gera? Meiningin er nefnilega sú að á móti þessum skatttekjum fellum við niður alla skatta vinstri stjórnarinnar síðustu tvö ár. Bráðum eru komin tvö ár síðan þeir tóku við, frú forseti. Jesús minn, ég segi nú ekki meira. Við ætlum að fella alla þessa skatta niður, fjölskyldan getur aftur farið að kaupa ódýrara bensín, hún getur horft í launaumslagið sitt og séð að það er meira í því en var áður og hún mun gleðjast. Og ég geri ráð fyrir því, þar sem við ætlum að aflétta allri skattaáþjáninni á atvinnulífið, að atvinnulífið fari nú að blómstra. Menn verði aftur bjartsýnir og fari að framkvæma og allt fari í gang. Ég reikna með því að þegar næsta ár er liðið og við þurfum aftur að takast á við ákveðinn vanda verði það miklu léttara vegna þess að þá verður atvinnulífið og heimilin og allt farið í gang. Þjóðfélagið verður bjartsýnna og það er eiginlega það sem vantar í þetta þjóðfélag, frú forseti, bjartsýni og von og hugmyndafræði til framtíðar. Þá er ég ekki að tala um til nokkurra mánaða eða vikna, eins og nú er verið að hugsa um, heldur hugmyndafræði til tíu ára eða svo. Hvar ætlum við Íslendingar að vera staddir eftir tíu ár? Þá vil ég sjá hér mikla og góða atvinnu, góðar tekjur, ekkert síður en í löndunum í kringum okkur, og að þeir sem hafa flutt til útlanda komi fagnandi heim aftur vegna þess að hér verði nóg atvinna og há laun.