139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Aðeins nokkur orð um fjárlagafrumvarpið við 3. umr. Ég þakka hv. fjárlaganefnd fyrir þær breytingar sem hér eru lagðar til. Ég held að að uppistöðu til séu þær sannarlega harðar viðbætur. Stærstu fjárhæðirnar lúta annars vegar að vaxtabótum og hins vegar að bótum almannatrygginga. Langstærsta fjárhæðin snýr bæði að því að styrkja vaxtabótakerfið sem fyrir er en jafnframt að koma á almennri vaxtaniðurgreiðslu. Það er auðvitað full þörf á því við þær aðstæður sem núna eru í skuldamálum heimilanna og mikilvægur hluti úrlausnarinnar sem þar er uppi. Þetta hlýtur auðvitað um leið að leiða hugann að því hversu gríðarlega hátt raunvaxtastig er í landinu á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimila sem eru þó öruggustu lánveitingar sem hægt er að ráðast í hér. Fimm prósenta raunvextir, eins og títt er oft á þeim markaði, er auðvitað gríðarlega þung byrði. Þess vegna er sannarlega þörf á því núna, þegar skuldsetning heimilanna er sem aldrei fyrr, að þar komi nokkur vaxtaniðurgreiðsla á móti. Hér er gert ráð fyrir að hún verði sem samsvari 0,6% almennt en auk þess koma auðvitað viðbæturnar á vaxtabæturnar sjálfar.

Hér eru líka ákveðnar breytingar á tengingum við tekjur og eignir sem við í efnahags- og skattanefnd höfum farið í gegnum og koma fram í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það var einmitt tekið út úr nefnd til 2. umr. fyrr í kvöld. Þar er sömuleiðis að finna breytingartillögur er lúta að almannatryggingum og speglast í breytingartillögum fjárlaganefndar sem varða almannatryggingarnar. Við framlagningu fjárlagafrumvarpsins var gert ráð fyrir því að á ný yrðu bætur almannatrygginga ekkert hækkaðar með vísan til erfiðrar stöðu ríkissjóðs og þess stóra verkefnis sem það er að rétta hinn mikla hallarekstur ríkissjóðs. Það er hins vegar alveg ljóst að laun, bæði á almennum markaði og hjá hinu opinbera, hafa haldið áfram að hækka þrátt fyrir að bætur manna væru frystar. Þannig hækkuðu laun á síðasta ársfjórðungi eftir mælingum um u.þ.b. 2% og þau hafa í raun og veru hækkað nokkuð alveg frá hruni. Það fer þess vegna að verða æ meira hrópandi að þeir sem búa við lægstu kjörin, eru bara á bótum, skuli ekki njóta hækkana á við aðra hópa í samfélaginu.

Þess vegna er fagnaðarefni að nú verður gerð sú breyting á að þeir sem eru á lágmarksframfærslu í almannatryggingakerfinu, bæði ellilífeyrisþegar og öryrkjar með 180 þús. kr. á mánuði, sem er gólfið, fái þó a.m.k. verðlagshækkanirnar á næsta ári. Til þess er ráðstafað 350 millj. kr., 200 millj. kr. í örorkulífeyrinn og 150 millj. kr. til aldraðra. Ég hygg að sú upphæð sem hér um ræðir geti numið hátt í 50 þús. kr. fyrir hvern einstakling brúttó, það þýðir um 30 þús. kr. nettó. Það eru auðvitað ekki háar fjárhæðir en eru sannarlega fjárhæðir sem þennan hóp munar um. Þetta er jú sá hópur í landinu sem við kröppust kjör býr og ánægjulegt að þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður sé a.m.k. að einhverju leyti hægt að koma til móts við hann. En ég legg áherslu á að núna við gerð kjarasamninga hljóti menn auðvitað að horfa til þess að þessir hópar njóti sömu leiðréttinga og aðrir hópar fá, þannig að þeir sitji ekki enn frekar eftir í kjaraþróun í samfélaginu.

Að öðru leyti vil ég sem formaður efnahags- og skattanefndar upplýsa um vinnu við þau lagafrumvörp er lúta að tekjuöfluninni, sem eru nú allnokkur. Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni var það þingmál sem mestu ræður um auknar tekjur og betri afkomu á næsta ári, í rauninni burðurinn í forsendum fjárlagafrumvarpsins, ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það var tekið út til 2. umr. á fundi fyrr í kvöld. Áður var búið að taka út til umræðu bankaskattinn svokallaða, sem er skattur á fjármálafyrirtæki, og á morgun vænti ég þess að frumvarp um breytingar á virðisaukaskatti og frumvarp um skatta og gjöld verði bæði tekin út sem og frumvarp um vörugjöld sem lýtur að kerfisbreytingu í vörugjöldum á bifreiðir og bifreiðagjöldin og er jafnframt hluti af forsendum fjárlaga.

Það var haft á orði fyrr í dag að þetta væri seint fram komið á þinginu og það er auðvitað rétt að bæði í ár, í fyrra og árið þar áður eru tekjuöflunaraðgerðir sem gripið er til í þröngri stöðu kynntar tiltölulega seint á haustþingi. Til að vinna þær þó eins vel og kostur er taka menn sér þann tíma sem þarf. Það er hins vegar alvanalegt á Alþingi að umræður um skattafrumvörp og ráðstafanir í ríkisfjármálum sem fjárlögunum tengjast fari fram eftir að afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins sjálfs sé lokið. Stuðningur stjórnarmeirihlutans liggur enda fyrir við þau mál sem hér um ræðir, a.m.k. nægilegs hluta stjórnarmeirihlutans til að þau fáist samþykkt á Alþingi.

Það er athyglisvert að sjá í nefndaráliti frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd að þeir telja að hér hafi verið ráðist í gríðarlega miklar skattahækkanir og í áliti þeirra eru tekjur af þeim taldar vera 152 milljarðar kr., hvorki meira né minna. Það vekur kannski fyrst og fremst athygli vegna þess að álit fulltrúa þessa stærsta flokks stjórnarandstöðunnar virðist ekki halda frá umræðu til umræðu. Við 2. umr. um fjárlög fór mestur tíminn og orkan í að lýsa því yfir að þær skattahækkanir sem menn hefðu ætlað að ráðast í hefðu ekki skilað sér í auknum tekjum. Það væri a.m.k. ágætt ef einhver fulltrúi flokksins í fjárlaganefnd gæti gert grein fyrir því við umræðuna hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé þeirrar skoðunar að hækkanir á skattprósentum hafi skilað gríðarlega miklum auknum tekjum eða hvort það sé skoðun Sjálfstæðisflokksins að þær hafi ekki gert það.

Við höfum jú sannarlega ráðist í umtalsverðar breytingar á tekjuhliðinni, við höfum í raun og veru kallað aftur óraunsæjar skattalækkanir frá síðustu árunum í bólunni, skattalækkanir sem við Íslendingar höfðum einfaldlega ekki efni á. Með því að setja upp þær prósentur hafa tekjur ríkissjóðs aukist umtalsvert og stærsti hlutinn af batanum í ríkisfjármálunum er tekinn á tekjuhliðinni. Það má sannarlega taka undir að komið sé að útgjaldahliðinni enda er í fjárlögum á næsta ári fyrst og fremst tekið á henni. Heildartekjuaukinn í þeim frumvörpum sem nú hafa verið til umfjöllunar hjá efnahags- og skattanefnd og lúta að aðgerðum í skattamálum eru 8 milljarðar af þeim nærfellt 40 milljarða aðgerðum sem fyrirhugaðar eru á næsta ári. Það er því alveg ljóst að allur þunginn í aðgerðum á næsta ári liggur á útgjaldahliðinni. Ekki er verið að auka neitt í byrðarnar í tekjuskattinum eða í virðisaukaskattinum eða öðrum slíkum skattformum sem fyrst og fremst leggjast á almenning enda þurfti því miður að afturkalla þær óraunsæju skattalækkanir sem verið höfðu á þeim sviðum á síðasta ári. Það hefur gengið eftir í aukinni tekjuöflun á þessu ári og ég held að það sé fagnaðarefni.

Hér voru í raun og veru nokkuð rangar tölur á floti í 2. umr. fjárlaga og því haldið fram, eftir tölum sem menn höfðu frá samtökum úti í bæ, að tekjuöflunin sem ráðgerð var á þessu ári með aðgerðunum sem gripið var til hefði að litlu leyti skilað sér, nánast bara að hálfu leyti skilað sér. Það var allt á misskilningi byggt, fyrst og fremst því að tekjufærslur á árinu 2009 urðu mun meiri en ráð var fyrir gert þegar fjárlagafrumvarpið var til afgreiðslu á árinu 2009. Þessi sérkennilegi samanburður kemur því fram af tæknilegum ástæðum. Tekjuaukinn hefur að langmestu leyti gengið eftir.

Það hefur þó verið áhyggjuefni að tekjuskatturinn sjálfur hefur verið nokkuð mikið undir áætlunum. Nýlegar tölur fyrir síðustu mánuði ársins, tölur fyrir heimtur í nóvembermánuði, benda þó til þess að hann hafi heldur verið að rétta sig og gefa ástæðu til að ætla að hann verði a.m.k. ekki meira undir áætlunum en ráð var fyrir gert.

Almennt held ég að í frumvarpinu, eins og það liggur fyrir fyrir komandi ár, skipti ekki fyrst og fremst máli þær tölur sem þar eru á blaði heldur að frumvarpið nái fram að ganga. Ég held að það sé kannski fagnaðarefnið á yfirstandandi ári að útkoman verður í raun og veru betri á yfirstandandi ári en ráð var fyrir gert í fjárlögum. Þegar þetta frumvarp hefur verið afgreitt sem lög frá Alþingi á morgun skiptir auðvitað öllu máli að framkvæmd þess á næsta ári, sannarlega margar erfiðar aðgerðir í niðurskurði, gangi eftir og að fyrirætlanir um sparnað og hagræðingu skili þeim nauðsynlega árangri sem við þurfum í ríkisfjármálum. Það er einfaldlega þannig að við höfum ekki lengur efni á því að lifa stórkostlega um efni fram á hverjum einasta degi og eyða og spenna á báðar hendur peningum sem við eigum ekki og skuldsetja með því börnin okkar og hækka erfiðasta reikninginn í þessum fjárlögum, vaxtareikninginn. Hann er á næsta ári talinn liggja í einum 76 milljörðum kr. sem við hefðum betur haft í hendi til að nýta til annarra og þarfari verkefna en að greiða vexti.