139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessi heiðarlegu svör. Það er nefnilega það sem við héldum allan tímann, vinnubrögðin varðandi undirbúninginn hafa ekkert verið mjög frábrugðin því sem verið hefur eða þingmenn stjórnarflokkanna hafa eins og menn vita fengið að vita stóru myndina með nokkrum fyrirvara.

Þess vegna spyr ég og velti fyrir mér hver ásetningur þingmanna eins og hv. þingmanna Atla Gíslasonar, Lilju Mósesdóttur, Sigmundar Ernis Rúnarssonar og Ásmundar Einars Daðasonar hefur verið gagnvart hæstv. fjármálaráðherra. Átti að skilja hann eftir úti á köldum klaka? Hann er alveg fullbjarga sjálfur veit ég mætavel en þessi hörðu viðbrögð koma mér á óvart. Þetta kom þeim spánskt fyrir sjónir eins og þeir settu sínar skoðanir fram eftir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október. Það var eins og þau kæmu af fjöllum ekki að þau séu ekki að gera það alla jafna. Þetta engu að síður, fjárlagafrumvarpið, var kynnt þannig eins og þessir þingmenn hefðu ekkert vitað um það hver stóra myndin í fjárlagafrumvarpinu væri. Það verður bara hver og einn að dæma fyrir sig.

Ég held að þetta sé ákveðið agaleysi varðandi fjárlögin því fjárlagafrumvarpið er stærsta mál hverrar ríkisstjórnar. Mér finnst þetta undirstrika í rauninni stjórnleysið sem einkennir samskipti stjórnarflokkanna. Ég veit að hv. þingmaður mun koma upp og mótmæla því og reyna að gera lítið úr því. Það sjá allir sem vilja sjá að stjórnarflokkarnir eru ekki samstiga í stærstu málum þjóðarinnar þegar við komum að atvinnumálunum. Það er hægt að nefna gagnaverið suður með sjó svo dæmi sé tekið svo ég tali nú ekki um álver eða uppbyggingu á Bakka.

Mér finnst þetta athyglisvert svar frá hv. þingmanni og ég vil þakka kærlega fyrir það. Hann undirstrikar það að allir þingmenn stjórnarliðsins vissu mætavel hvernig fjárlagafrumvarpið mundi líta út þannig að það hefði ekki átt að koma þeim á óvart. Ég bíð spennt eftir því að heyra (Forseti hringir.) hver afstaða hv. þingmanns er gagnvart umræðunni um veggjöldin hér á suðvesturhorninu.