139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta held ég að hafi verið þrjár spurningar. Ég skal svara þeirri fyrstu snöggvast. Um er að ræða stjórnarfrumvarp og ég geri ráð fyrir því að eðli málsins samkvæmt eigi meginefni þeirra stuðning þingflokka stjórnarflokkanna, þess vegna heita þau stjórnarfrumvörp og eru afgreidd og samþykkt í þingflokkum þeirra sem mynda stjórnarmeirihluta.

Í öðru lagi sagði ég ekki að skattalækkanir hefðu verið óráðsía, af því að óráðsía er það ekki. Skattalækkanir fela í sér að auka ráðstöfunartekjur fólks, það er ekki í sjálfu sér óráðsía því að það er bæði farið vel og illa með þá peninga. Ég sagði að þær hefðu verið óraunsæjar. Það var rétt hjá hv. þingmanni að það var líka óraunsætt okkar mat á þeim tíma. Við vildum að vísu fara í skattalækkun, að hækka persónuafslátt, sem hefði fyrst og fremst bætt kjör hinna lægst launuðu og kannski ekki leitt til mikillar aukningar í lúxusneyslu eða eignabólum. Það hefði engu að síður ekkert verið innstæða fyrir því þannig að ég held að við höfum verið alveg jafnóraunsæ í því, ef þingmaðurinn var að reyna að knýja fram játningu. Ég held að við þurfum öll að líta gagnrýnum augum í eigin barm og viðurkenna mistök og rangar áherslur fyrri ára ef við ætlum að læra eitthvað af óförum okkar og þroskast inn í framtíðina.

Hvað varðar afgreiðslu fjárlaga þá er væntanlegt frumvarp til breytingar á þingskapalögum. Ég vildi óska þess að hluti af frumvarpinu lögfesti að tekjuöflunarfrumvörpin ættu að leggjast fram í þinginu á sama degi og fjárlögin sjálf. Vandinn sem okkur er á höndum er sá að frumvörpin hafa ekki komið inn í þingið fyrr en í síðari hluta nóvembermánaðar, jafnvel undir mánaðamótin nóvember/desember. Þá er einfaldlega mikilvægt að við notum eins mikinn tíma og við getum til þess að (Forseti hringir.) heyra í aðilum í samfélaginu og fá ábendingar um það sem betur má fara og reynum að tryggja (Forseti hringir.) að það séu sem mest gæði í lagasetningum eins og kostur er.