139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þingmanninum til hugarhægðar er uppistöðuna, eins og ég gat um í ræðu minni, í tekjuöflunum ríkissjóðs að finna í frumvarpi um ráðstöfun í ríkisfjármálum, máli nr. 200 ef þingmenn vilja kynna sér það, sem hefur verið tekið út úr nefndinni og hér inn. Þau þrjú frumvörp sem eftir eru varða út af fyrir sig ekki mikla tekjuöflun. Þau eru fyrst og fremst breytingar á skattumhverfinu, bæði í virðisaukaskatti og í vörugjöldum og varða óverulega aukningu á tekjum.

Svo við höldum áfram með vinnubragðaumræðuna þá held ég að við séum öll sammála um að við eigum líka að hætta þessu smástyrkjabixi í 2. og 3. umr. og reyna að halda okkur við meginatriði máls og aðalatriði. Ég held líka að við eigum að skoða til að mynda fyrirkomulagið sem Norðmenn hafa. Starfsbróðir minn þar hefur kynnt mér með hvaða hætti þeir hafa t.d. gert þetta meðan við vorum að þessu vinnulagi. Þar lögfesta menn rammann fyrst fyrir alla málaflokkana. Það er þingið sem lögfestir hann og lögfesti hann 25. nóvember. Síðan vinna menn í einstökum málaflokkum og samþykkja rammann fyrir hvern málaflokk fyrir sig með nokkurra daga millibili. Menn fá líka sérstaka umfjöllun um hvern málaflokk. Ég held að í tengslum við það, ef menn vildu fara þá leið í vinnubrögðum þá mætti jafnvel taka upp ágæta hugmynd hv. þm. Illuga Gunnarssonar, sem nú er í leyfi, að hér ætti að hafa spurningadag um hvern málaflokk með viðkomandi fagráðherra í þingsal þar sem þingmönnum gæfist færi á því að spyrja viðkomandi fagráðherra spurninga um fjárlagaliði sem undir hans málaflokk heyra. Hann þyrfti að svara þeim spurningum í ræðustól Alþingis í heyranda hljóði og (Forseti hringir.) beinni útsendingu í dóm landsmanna.