139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér var núna verið að leggja rétt í þessu fram mál upp á 160 blaðsíður. Mál sem við þekkjum vel, það er Icesave-málið frá fyrri tíð. Það verður að segjast eins og er að í ljósi síðasta máls að því betur sem við köfum ofan í samninginn og þingskjalið því meiri efasemdir kviknuðu og spurningar. Ég vil einfaldlega vekja athygli á því í fullri vinsemd að við erum að klára 3. umr. fjárlaga. Henni lýkur hugsanlega um tólfleytið og við hefjum þingstörf klukkan hálfellefu. Það verður byrjað að greiða atkvæði klukkan ellefu og það er gert ráð fyrir langri atkvæðagreiðslu. Síðan hefst umræða klukkan tvö.

Ég vara eindregið við því ef menn ætla að flýta sér og haska sér í þessu máli. Ég vonast til þess að þegar við í fjárlaganefnd fáum þetta mikilvæga mál verði hlustað á kröfur okkar sjálfstæðismanna um þau gögn sem við teljum mikilvægt að verði aflað, ekki síst í ljósi þess að það verða hugsanlega fjórar vikur þar til þing kemur saman. Að það verði farið eftir kröfunum sem við setjum fram í fjárlaganefnd til þess að við séum ekki (Forseti hringir.) að vinna þetta jafnflausturslega og fyrstu skrefin virðast vera í þessu mikilvæga máli.