139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessa umræðu sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hóf og legg á það áherslu að við vinnu málsins verði þess gætt, til þess að við missum málið ekki frá okkur eina ferðina enn í karp um keisarans skegg, alla leið að öll gögn málsins sem óskað er eftir, allir þeir gestir sem óskað er eftir að komi verði tryggðir. Ég óska þess að fjárlaganefnd — ég sé að hv. formaður fjárlaganefndar er hér staddur og treysti því að nefndin geti unnið þetta sameiginlega og gefið sér þann tíma sem til þarf. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er óþægilegt fyrir okkur að eiga eftir að lesa þessar 160 blaðsíður til að undirbúa okkur fyrir morgundaginn. Hv. þingmaður lét þess getið að fjárlagaumræðunni mundi sennilega ljúka klukkan tólf en þá eru eftir tvö önnur mál á dagskrá (Forseti hringir.) sem ég veit ekki hvort hæstv. forseti hyggst taka á dagskrá. Það væri gott að fá svör við því.