139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:41]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvenær eigum við að fara í framkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum? Á næsta ári. Það er engin spurning enda er í þeirri samgönguáætlun sem ég lagði hér fram og var samþykkt gert ráð fyrir miklum peningum í það verk, miklum peningum af þeim sem settir verða fram. Ef eitthvað er munu þeir aukast vegna þessara framkvæmda sem við erum að tala um.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerir líka að umtalsefni niðurgreiðslu á rafhitun í dreifbýlinu. Það er nú þannig að ég er kominn í iðnaðarnefnd aftur og er ýmislegt að rifjast upp. Ég var þar 2003 þegar Valgerður Sverrisdóttir beitti sér fyrir raforkutilskipuninni og öllu því sem sett var þar inn. Ég man alveg baráttuna fyrir rafhituninni í dreifbýli. (Gripið fram í.) Þar voru settar inn 230 milljónir sem eru búnar að vera nákvæmlega eins allan tímann, það er að vísu ekki rétt, það er búið að bæta við 15 milljónum öll þessi ár, nú eru þær 245. Þetta er hluti af hækkun í dreifbýlinu. Virðulegi forseti. Þetta er í fyrsta skipti síðan 2003 sem niðurgreiðsluupphæðin er hækkuð. Það er í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það verða 40 milljónir (Forseti hringir.) sem koma nýjar þarna inn. Það hefur ekki verið gert áður. Þetta er góð byrjun.