139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir mikilli ánægju með hagvaxtartal hv. þm. Kristjáns L. Möllers. Við erum alveg sammála um að eina leiðin út úr kreppunni sé aukinn hagvöxtur. Ég er hins vegar ekki viss um að hv. þingmaður fylgi réttri ríkisstjórn miðað við þær áherslur sem hann talaði fyrir í þeim efnum.

Eins held ég að ýmislegt sé til í því sem hv. þingmaður hefur verið að velta fyrir sér — segi kannski ekki „til í“ en maður verður að virða það við hv. þingmann að hann hefur verið að leita allra leiða til að koma einhverjum verkefnum af stað, búinn að gera sér grein fyrir því að það er kannski ekki von á miklu frá ríkisstjórninni sjálfri í þeim efnum. Þannig held ég að þessar hugmyndir hv. þingmanns um samgöngubætur hafi orðið til. Hins vegar verðum við alltaf að hafa í huga í umræðunni að þetta eru allt sömu peningarnir. Þótt ríkið vilji ekki leggja fram peninga af skatttekjum eru þetta í rauninni sömu peningarnir ef við látum fólkið bara borga beint fyrir að nota vegina í stað þess að gera það í gegnum skattkerfið. Þetta er bara önnur tegund af sköttum.

Það sem ég vildi helst spyrja hv. þingmann um eru orð hv. þm. Helga Hjörvars áðan, að menn hefðu líklega sjaldan fengið jafnmikla aðkomu að undirbúningsvinnu fjárlaga og verið jafn vel upplýstir um hvað væri í vændum þar eins og núna. Því spyr ég: Hvernig stendur á því að hv. þingmaður kom af fjöllum til að mynda varðandi fyrirhugaðan niðurskurð í heilbrigðismálum á landsbyggðinni?