139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Aftur er ég sammála ýmsu sem hv. þingmaður sagði um mikilvægi hagvaxtar.

Varðandi þessar hugmyndir í samgöngumálum þá man ég ekki betur en við hefðum rætt þetta á sínum tíma sem hálfgerða neyðarráðstöfun til að koma einhverri vinnu af stað vegna þess að ekkert væri að gerast hjá ríkisstjórninni. Ef það á hins vegar að vera framtíðarstefna að rukka fólk fyrir að aka um vegi landsins verðum við að hafa hugfast það sem ég nefndi áðan að veggjald er í eðli sínu skattur. Það verður þá sérstaklega skattur á landsbyggðina, þá sem keyra mest úti á landi. Það er því ekki það sama að leggja slík gjöld á allt vegakerfið og ráðast í einhver tiltekin verkefni eins og Vaðlaheiðargöng og fjármagna með þessum hætti.

Loks vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að staðfesta að það hafi ekki verið alveg hárrétt hjá hv. þm. (Forseti hringir.) Helga Hjörvari sem hann sagði varðandi vel upplýsta umræðu og undirbúning fjárlaga.