139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:48]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þingmaður sagði þá hlustaði ég á athyglisverða ræðu hv. varaformanns fjárlaganefndar í dag þar sem hann talaði um hvað gert hefði verið í nefndinni við fjárlagagerðina. Ég þekki ekki þau vinnubrögð, sit ekki í þeirri nefnd, veit að þar er unnið vel og mikið en ég hygg að lýsing hans á því hvernig unnið hefur verið í fjárlaganefnd sé ný af nálinni. Nóg um það.

Varðandi stórátak í samgöngumálum þá ítreka ég það sem ég sagði áðan: Það var ánægjulegt hvað mikil samstaða var um frumvarpið í júní og samþykktina. Sú leið sem við erum að fara, hvort sem við köllum hana neyðarleið eða hvað, er bara eins og margar þjóðir í kringum okkur hafa farið og útfært. Það má kannski kalla hana neyðarráðstöfun vegna þess að við getum ekki varið nógu miklu til hefðbundinna ríkisframkvæmda á næstu árum. Það verða ekki nema 6 milljarðar á næsta ári. Við skulum hafa það í huga, virðulegi forseti, að frá árinu 2008 kostar (Forseti hringir.) vegarspottinn sem við fengum þá fyrir 1 milljarð nú 1,7 milljarða. Þannig hefur hækkunin verið.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði. Við eigum eftir (Forseti hringir.) að útfæra þessar hugmyndir miklu, miklu betur og ég hika ekki við að halda því fram að við munum ná mikilli sátt um útfærsluna á þessari leið.