139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:52]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég bara ítreka það sem ég sagði í ræðu minni. Helmingurinn af ræðutíma mínum fór í að ræða stórátak í samgöngumálum, þessa innspýtingu og þau miklu öryggisatriði sem verið er að fara í. Ég lýsti því samkomulagi sem gert var við fulltrúa allra flokka, forustumenn flokkanna, um frumvarpið og almenn sátt var um það. Þar er skrifað inn hvað á að gera, þar með talið að endurgreiða lánin með einhvers konar útfærðum notendagjöldum. Ég ítreka það og skal gera það aftur, virðulegi forseti. Ég hef ítrekað þetta samkomulag við hæstv. samgönguráðherra sem ég vinn þetta verk fyrir; viðræðurnar við lífeyrissjóðina og að vinna áfram og stofna þessi félög.

Hann er algjörlega sammála mér um næsta skref sem verður vegna þess að við förum í átakið. Ég sagði allan tímann við lífeyrissjóðina: Ef við náum ekki samkomulagi um vextina verður ekkert af verkinu. Ef verkið fer ekki í gang þá höfum við ekkert að gera með að stofna félögin eða útfæra framtíðartekjuöflunarkerfi til samgöngumála á Íslandi. Nú er næsta stig að skipa nefndina. Hæstv. samgönguráðherra mun útfæra það á næstu dögum eða vikum.

Þá ítreka ég það enn einu sinni sem ég sagði, nefndin hefur nægan tíma. Aldrei þessu vant þurfum við ekki að fara í vinnu þar sem skila þarf niðurstöðu á morgun eða hinn. Við höfum fjögur, fimm ár til að útfæra þetta. Við getum skoðað hvað nágrannaþjóðirnar eru að gera. Hvernig verður þetta gert best til framtíðar? Verður það gert með rafrænum hætti, upp í gervihnött? Geta bensíngjöld og olíugjöld þess vegna lagst af og farið inn í eitt gjald, eða hvað?

Þessi þverpólitíska nefnd, virðulegi forseti, ég ætla rétt að vona að við getum verið sammála um hana á Alþingi, hún mun útfæra tillögurnar. Hún á að ná sem mestri sátt um það.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef áður sagt, það kemur að því að stjórnarandstöðuflokkarnir, annar eða báðir eða hvernig sem það verður, þurfi einhvern tímann að taka ábyrgð á stjórn (Forseti hringir.) ríkismála á næstu árum. Þá þurfum við að hafa sátt um þetta. Við eigum ekki að þurfa að fara í pólitískan hasar um þessa útfærsluatriði. Gefum okkur tíma og vinnum (Forseti hringir.) þetta vel.