139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:55]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú átta ég mig ekki á hvernig hv. þingmaður getur sett það yfir á núverandi hæstv. samgönguráðherra að hann hafi afvegaleitt umræðuna. Ég veit hvernig þessi umræða er komin til í fjölmiðlum. Það voru fyrst og fremst fulltrúar frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda sem byrjuðu á að setja fram vitlausar hugmyndir og rangfærslur úr vinnugögnum úr viðræðum við lífeyrissjóðina. Viðræðurnar voru opnar og mikið traust milli manna og öll gögn voru afhent. Ég veit hvaðan upplýsingarnar um þessi óútfærðu (Gripið fram í.) atriði hafa komið til fjölmiðla og annarra og hvers vegna þetta er sett fram eins og gert er, með kílómetragjaldi. Ég ítreka það sem ég sagði: Fulltrúar allra flokka munu finna sanngjarna og eðlilega leið hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Af því að tíminn er að verða búinn og hv. þingmaður ræddi um hvað henni líkaði vel að heyra mig tala um verðmætasköpun í landinu og ég tæki undir með hina þverpólitísku sátt um framkvæmdir. Það er ekkert óeðlilegt, virðulegi forseti, að við hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir séum mjög sammála, enda erum við bæði (Forseti hringir.) með mjög gott upprunavottorð, þ.e. upprunavottorð frá hinum gamla góða Alþýðuflokki, Jafnaðarmannaflokki Íslands. (ÞKG: Ég hef aldrei verið í þeim flokki.)