139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í þeirri fjárlagaumræðu sem fram hefur farið alveg frá því að fjárlagafrumvarpið var fyrst lagt fram 1. október sl. hafa komið fram mjög misvísandi upplýsingar um það hvernig staðið hafi verið að gerð og undirbúningi fjárlaganna í þingflokkum stjórnarflokkanna. Frumvarpið var lagt á borð okkar klukkan fjögur 1. október og áður en haninn hafði galað þrisvar voru stjórnarliðar upp til hópa búnir að afneita fjárlögunum, a.m.k. að hluta til, og sverja af sér alla ábyrgð. Áður en vika var liðin höfðu svo margir afneitað að það var ljóst að ekki var lengur þingmeirihluti á Alþingi fyrir heilbrigðisþætti fjárlagafrumvarpsins sem var þó helst stefnumarkandi um það sem koma skyldi.

Úti um allt land sögðu stjórnarliðar frá því að þeir hefðu komið af fjöllum, ekkert vitað hvað til stóð, og maður spyr sig: Sváfu menn á þingflokksfundunum þegar verið var að fara yfir frumvarpið eða var þannig staðið að því í þingflokkunum að ekki var gerð grein fyrir afleiðingunum af þeim fjárlagarömmum sem markaðir voru og lagðir til grundvallar fjárlagafrumvarpinu? Voru mönnum virkilega ekki kynntir fjárlagarammarnir og sáu menn ekki að niðurskurður af þeirri stærðargráðu, t.d. í heilbrigðismálunum, kæmi einhvers staðar niður, t.d. á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni?

Málin hafa ekki skýrst í fjárlagaumræðunni, því miður, heldur orðið flóknari. Hér hefur verið greint frá því að þingmenn hafi þvert á móti verið mjög vel upplýstir í þingflokkum stjórnarflokkanna um hvað stæði til. Þannig sagði hv. þm. Helgi Hjörvar frá því í gærkvöldi að fjárlagafrumvarpið hefði auðvitað fengið umtalsverða umfjöllun, hann sagði að þingmönnum þeirra hefði verið vel ljóst hvers var að vænta og ef eitthvað væri hefði kynningin að þessu sinni verið óvenjumikil.

Ég veit hver kynningin var t.d. í þeim þingflokki sem ég sat í meðan við vorum í ríkisstjórnarsamstarfi. Það var farið yfir fjárlagarammana, það var gerð grein fyrir því hvað það mundi hafa í för með sér fyrir einstök verkefni, a.m.k. hin stærri, o.s.frv. (Forseti hringir.) Nú liggur fyrir að hv. þingmaður segir að enn meira hafi verið farið ofan í þessi mál, þingmenn betur upplýstir og hafðir betur með í ráðum, og þess vegna spyr ég hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, formann þingflokks Samfylkingarinnar: Hvernig var að þessum málum staðið?