139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni spurninguna. Því er til að svara að það var staðið að þessari kynningu með nokkuð hefðbundnum hætti í þingflokki Samfylkingarinnar, þ.e. þegar rammarnir höfðu verið samþykktir í ríkisstjórn voru þeir kynntir í þingflokki Samfylkingarinnar. Okkur var allan tímann ljóst um hvaða upphæðir væri að tefla og hvernig þær skiptust á milli rammanna. Það sem mönnum varð ekki ljóst fyrr en undir lok undirbúningsvinnunnar var hvernig skiptingin í fjárlagafrumvarpinu kæmi nákvæmlega út fyrir tilteknar opinberar stofnanir. Eins og hv. þingmaður veit hefur frumvarpið verið lýðum ljóst frá 1. október og verið unnið í því og reyndar unnar nýjar tillögur í meðförum fjárlaganefndar. Í sjálfu sér var ekki neitt í þessu með öðrum hætti en hægt er að búast við miðað við það hvernig fjárlagafrumvarp er unnið enn um sinn hér á landi. Hins vegar hefur verið mikil umræða í okkar hópi í gegnum missirin, og ekki bara í þessari ríkisstjórn heldur líka í fyrri ríkisstjórn, um að það þurfi að endurskoða fjárlagavinnuna frá grunni og gera hana með allt öðrum hætti en hefur verið. Það felst ekki síst í því að með breytingu á Stjórnarráði Íslands og fækkun ráðuneyta þarf að endurskoða rammana og færa þar duglega á milli, færa fjármuni til samræmis við þá verkaskiptingu sem nú er í Stjórnarráðinu og hætta að nota ramma sem eru komnir til ára sinna og endurspegla hvorki samtímann, verkefnin né forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar.