139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

kynning fjárlagafrumvarps í stjórnarflokkunum -- nefndarfundur vegna söluferlis Sjóvár -- veggjöld o.fl.

[10:45]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað vegna orða hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar í ræðustól áðan um að stjórnarþingmenn hefðu e.t.v. verið sofandi við fjárlagagerðina. Svo var alls ekki. Því skal haldið til haga að þær prósentur sem um var vélað í aðdraganda fjárlagafrumvarpsins voru allsendis ókunnar þingmönnum Samfylkingarinnar, svo ég tali aðeins fyrir þann flokk, alltént þeim sem hér stendur, þ.e. að farið yrði fram með 40% niðurskurðarkröfu á hendur sjúkrahúsunum úti á landi og að 85% af niðurskurði til heilbrigðismála færi fram á sjúkrahúsum úti á landi. Það var þingflokknum ekki kunnugt, alltént ekki þeim sem hér stendur. Því kom það honum algjörlega í opna skjöldu er hann las viðkomandi fjárlagafrumvarp, auk þess sem sú kerfisbreyting sem þar var kynnt hafði ekki verið rædd, a.m.k. ekki í þaula, eftir því sem sá sem hér stendur kemst næst og mætti hann þó ágætlega vel á fundi hjá þingflokki Samfylkingarinnar.

Ég vil hins vegar taka fram, frú forseti, að það er til marks um nýja tíma að þessu fjárlagafrumvarpi hefur verið breytt (Gripið fram í.) og því hefur verið breytt til batnaðar. (Gripið fram í.) Það mátti ekki í eina tíð þegar ákveðnir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins [Háreysti í þingsal.] lögðu fram fjárlagafrumvarp sem mátti ekki hrófla við og ekki mátti tala um. Fjárlagafrumvarpið var lagt fram og menn sögðu, (Gripið fram í.) jafnvel þó að gagnrýnin kæmi úr þeirra eigin flokkum, ýmislegt við blaðamenn og fjölmiðlamenn sem jafnvel gerðu athugasemdir við það úti í samfélaginu en þeir þorðu ekki að taka til máls í umræðum um málið innan þings vegna þess að þar réð einn maður og hann skyldi ráða til enda. [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í salnum.)