139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

kynning fjárlagafrumvarps í stjórnarflokkunum -- nefndarfundur vegna söluferlis Sjóvár -- veggjöld o.fl.

[10:54]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson snerti á óþægilegu máli, sérstaklega fyrir Samfylkinguna. Hv. þm. Helgi Hjörvar kemur hingað og uppnefnir þingmenn í öðrum flokkum kerruhesta og ég veit ekki hvað og hvað. Það er komið í ljós að þingmenn Samfylkingarinnar eru ekkert annað en hlaupadrengir, og hlaupastrákar fyrir ráðherrana í ríkisstjórninni því að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson upplýsti um það (Utanrrh.: Svoleiðis á það að vera.) að meginatriðin (Utanrrh.: Svoleiðis á það að vera.) í fjárlagafrumvarpinu hefðu hvorki verið kynnt fyrir honum, sem þó situr fyrir hönd flokksins í fjárlaganefnd, né öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar. Þeir vissu með öðrum orðum ekkert á hvaða ferðalagi ríkisstjórnin og ráðherrarnir voru varðandi niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Og fram í kallar hæstv. utanríkisráðherra: Svona á það að vera. Hann viðurkennir þar með að þannig hafi verið á málum haldið innan þessarar ríkisstjórnar og stjórnarflokkanna.

Það er auðvitað ekkert nýtt að hv. stjórnarliðar séu reiðubúnir til að skrifa upp á hvað sem er, ólesið og óséð. Hver man ekki eftir því hvernig farið var með Icesave-samning Svavars Gestssonar sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn börðust svo harkalega fyrir á þinginu, (Gripið fram í.) voru reiðubúnir (Gripið fram í.) til að samþykkja þrátt fyrir að nú sé komið í ljós að sá samningur var 432 milljörðum kr. óhagstæðari fyrir fólkið í landinu, (ÓÞ: Þetta er rangt.) íslenska skattgreiðendur, (Gripið fram í.) en þeir samningar (Forseti hringir.) sem liggja fyrir núna. Upp á þessa samninga kvittuðu (Forseti hringir.) þingflokkar stjórnarflokkanna óséða og það gerði forsætisráðherrann líka. [Samtöl í þingsal.]