139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

kynning fjárlagafrumvarps í stjórnarflokkunum -- nefndarfundur vegna söluferlis Sjóvár -- veggjöld o.fl.

[10:57]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Maður getur eiginlega byrjað á að spyrja: Er lægð yfir landinu, eða hvað er að gerast? (Gripið fram í: Það er lægð yfir Samfylkingunni.)

Ég ætlaði bara að koma inn á einn þátt sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson gerði að umtalsefni áðan, þ.e. ákvörðun ríkisstjórnarinnar á föstudaginn fyrir viku, daginn eftir að slitnaði upp úr viðræðum við lífeyrissjóðina um að setja í gang stórátak í samgöngumálum, og umferðaröryggismálum í leiðinni, þ.e. að setja framkvæmdir upp á tæpa 40 milljarða kr. í gang á næstu 4–5 árum og útfæra á þann hátt sem samþykkt var í frumvarpi sem var gert að lögum 16. júní sl. af u.þ.b. 45 þingmönnum. Enginn var á móti.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er verið að afvegaleiða umræðuna. Það eru sett fram ófullgerð vinnugögn, í raun er verið að brjóta trúnað með því að setja þetta fram til að setja þessa umræðu svona í gang. Ég vil taka skýrt fram, vegna þess að ég leiddi þetta mál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að næst í ferlinu þegar búið er að ákveða þetta mikla átak er að hæstv. samgönguráðherra skipi þverpólitíska nefnd sem ég átti þátt í að gera samning um við formenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna. Ég ræddi það líka við Hreyfinguna. Nefndin hefur 4–5 ár til að útfæra nýjar hugmyndir um hvernig eigi að afla fjár til vegagerðar og reksturs vegakerfisins, þar með talið endurgreiðslu á þeim lánum sem tekin verða fyrir verkefninu á suðvesturhorninu. Við höfum 4–5 ár og það á að vera hægt að ná þverpólitískri sátt á þeim tíma um hvernig þetta verður útfært. Það er rangt sem sett hefur verið fram, og allir eru að tala um, að rukka eigi 7 kr. á kílómetrann o.s.frv. Andstæðingarnir setja þetta fram (Forseti hringir.) til að afvegaleiða umræðuna og það er sárt til þess að vita að það sé gert.