139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í umræðu um þetta fjárlagafrumvarp hefur mikið verið rætt um alla þá vankanta sem hafa verið á vinnubrögðunum við gerð frumvarpsins en gallarnir á þessu frumvarpi við þessar aðstæður, kreppuaðstæður, gefa hins vegar tækifæri til þess að læra af reynslunni um hvað betur megi fara við fjárlagavinnu almennt. Sérstaklega sjáum við mikilvægi þess að menn fari að huga að því hvað er raunverulegur sparnaður og hvað ekki, og huga t.d. að því hvenær sparnaður sem lítur út fyrir að vera niðurskurður á pappír leiðir til meira tjóns til lengri tíma litið. Það eru mörg dæmi um slíkt í þessu fjárlagafrumvarpi.

Þetta kennir okkur líka að við þurfum að fara að huga að fjárlögum til lengri tíma, jafnvel gera 10 ára áætlun til að geta metið hvað felur í sér raunverulegan sparnað og hvað raunverulegan kostnað til lengri tíma. Einnig áhrifin af hagkerfinu í heild, hverju erum við að ná inn í hagkerfið og hvað fer út úr því. Þar er sérstaklega mikilvægt að huga að ríkisútgjöldum og það má gjarnan setja tölurnar sem við munum ræða hér í dag í samhengi við það sem (Forseti hringir.) við munum síðan ræða á eftir, ákomin útgjöld vegna Icesave sem nema 26 milljörðum kr. á þessu ári miðað við núverandi tilboð, en til þess að ná 26 milljörðum kr. út úr landinu þarf að spara (Forseti hringir.) a.m.k. tvöfalda þá upphæð innan lands.