139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hér er lögð fram tillaga um aukalegt framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna í þeim tilgangi að jafna lífskjör fólks í landinu. Þannig er það í dag að ef einstaklingur er á atvinnuleysisskrá eða á framfæri Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar er grunnframfærsla hans reiknuð 150 þús. kr. á mánuði. Ef um háskólanema er að ræða er einungis gert ráð fyrir að hann þurfi 120 þús. kr. á mánuði til að framfleyta sér. Mér sýnist því miður að stjórnarliðar ætli að greiða atkvæði gegn því að framfærslugrunnur háskólanema í landinu verði leiðréttur eins og við framsóknarmenn leggjum hér til. Það er þvert á það sem margir aðrir stjórnarliðar hafa talað fyrir að undanförnu og ég harma það. Ég segi já. (Gripið fram í: Margir aðrir stjórnarliðar?) [Kliður í þingsal.]