139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:17]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um greiðslur vegna vaxtabóta og lækkun vaxta. Þetta er ein mikilvægasta aðgerðin sem þó hefur komið frá núverandi ríkisstjórn í skuldavandamálum heimilanna og margt er hægt að gagnrýna, og nauðsynlegt að gera það, hversu seint hefur gengið að leysa úr þeim málum. Skoðun okkar sjálfstæðismanna er sú að þessi aðgerð, nái hún fram að ganga, muni hjálpa stórum hluta þeirra sem eru í vandræðum.

Ég gagnrýni hins vegar harðlega að ekki sé enn búið að ganga frá nauðsynlegu samkomulagi við fjármálastofnanir og lífeyrissjóði til að fjármagna þetta. Í trausti þess að það gangi eftir styðjum við sjálfstæðismenn þessa aðgerð og vonumst til þess að hún muni verða sú hjálp sem nauðsynleg er gagnvart heimilunum í landinu.