139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um ýmsa liði og við höfum séð það í þessari umræðu og þessari vinnu, sem hefur nú aðallega verið í bakherbergjum, að hér er verið að slást um hverja milljón. Hér hefur mönnum orðið tíðrætt um að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sé í þágu velferðar en ég er ekki alveg viss um að það standist skoðun því að ýmislegt rennur hér í gegn án nokkurrar fyrirhafnar sem verður seint talið til slíks. Ég vek sérstaklega athygli á lið 9 á bls. 8 í þessu skjali en hæstv. ríkisstjórn sá sérstaka ástæðu til að fara að styrkja kvikmyndahús í höfuðborginni. Er ég nú mjög fylgjandi því að hér séu góð kvikmyndahús (Forseti hringir.) en mér finnst eiginlega að við sem sækjum þau eigum að borga fyrir það sjálf en ekki taka það af skattpeningum.