139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um aðskiljanlega liði, ég ætla að nefna tvo. Í fyrsta lagi vil ég þakka það sem vel er gert. Hér er verið að hverfa til baka frá þeirri stefnu sem var mörkuð gagnvart Háskólasetri Vestfjarða. Frumvarpið var lagt fram með þeim hætti að hugmyndin var að skera niður framlög til háskólasetursins um 30% sem hefði rústað þá starfsemi. Síðan var gengið til baka að hálfu leyti við 2. umr. og síðan er það að fullu gert núna. Það þurfti sem sagt tvær atrennur á Alþingi til að ljúka þeirri vegferð en ég þakka fyrir það sem vel er gert.

Varðandi heilbrigðisstofnanir þá vek ég athygli á því að til að mynda Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki er skilin eftir í lausu lofti. Að vísu er gengið nokkuð til móts við hagsmuni stofnunarinnar en engan veginn nægjanlega og eftir sem áður er boðað að áfram verði haldið á þeirri braut að skera niður gagnvart þessari stofnun þannig að ætlunin er sú að ná því markmiði sem sett var fram í fjárlagafrumvarpinu á tveimur árum en ekki einu. Það er bitamunur en ekki fjár. Þetta er röng stefna, ég mótmæli þessu og vek athygli á því (Forseti hringir.) að þessi stofnun er skilin eftir á vergangi og í lausu lofti.