139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að bólusetningar hafi verið og séu besta heilsuvörnin og hagkvæmasta aðgerð í heilbrigðismálum sem völ er á. Ég fagna því sérstaklega að núna þegar nauðsyn er til aðhalds og mörg góð verkefni hafa þurft að víkja fyrir niðurskurðarhnífnum skulum við vera í færum til að taka upp tvær nýjar bólusetningar til viðbótar við þær sjö sem boðið er upp á ókeypis hér á landi. Þannig hefur verið tryggt að öll börn sem fæðast frá og með 1. janúar á næsta ári fái bólusetningu gegn lungnabólgu og eyrnabólgu og nú greiðum við atkvæði um tillögu sem tryggir að frá og með næsta hausti verði allar 12 ára stúlkur bólusettar gegn HPV-sýkingum og leghálskrabbameini af þeirra völdum. Þessar ákvarðanir sýna mikla framsýni og fyrirhyggju og munu bæta heilsu allrar þjóðarinnar til langrar frambúðar. Ég skora á þá fjóra þingmenn sem hér sitja hjá (Forseti hringir.) að greiða þessu þjóðþrifamáli atkvæði sitt.