139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:47]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. fjárlagafrumvarpsins kom fram hjá þeim sem hér stendur að það væri mikilvægt að styðja við háskólasamfélagið og reyndar skólasamfélagið allt. Þar var glaðst yfir auknum framlögum til framhaldsskóla og háskóla, ekki síst Háskóla Íslands. Hér er gengið fram með svipuðum hætti gagnvart Háskólanum á Akureyri sem hefur gengið fram fyrir skjöldu í miklu og ríku aðhaldi á undanliðnum árum og breytt mjög um alla rekstrarliði í þeim skóla. Er það vel.

Við eigum á tímum sem þessum að styðja ríkisskóla á framhaldsskólastigi jafnt sem háskólastigi. Það hefur sannast að þeir fara betur með peningana en svokallaðir einkaskólar þegar af ríkispeningum er tekið.