139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[13:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Efnahagssóknin sem hæstv. fjármálaráðherra talar um verður veikari en að var stefnt og við þurfum á að halda. (Fjmrh.: En sókn …) Landrisið sem talað var um verður fyrirferðarminna og í raun og veru ekkert annað en á endanum landsig vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar, vegna stefnu hennar og vegna þess sem verið er að leggja til í þessu fjárlagafrumvarpi um auknar álögur og illa ígrundaðar niðurskurðaraðgerðir.

Það er sagt að stjórnmál séu list hins mögulega. Manni kemur þetta í hug þegar stjórnmálamaðurinn og listamaðurinn sem gekk til liðs við Vinstri græna verður bjargvættur þeirra hér og tryggir að án liðsaukans sem Vinstri grænir hafa fengið og þar sem þeir hafa misst 20% þingflokksins fyrir borð við umræðu þessa máls (Forseti hringir.) hefðu þeir ella ekki haft meiri hluta í þinginu. Það segir meira en mörg orð um stöðu ríkisstjórnarinnar og efni þess fjárlagafrumvarps sem hér er verið að greiða lokaatkvæði um. [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: … 18%.)