139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að menn séu ekki að uppgötva landsbankaleiðina aftur sem Svavar Gestsson dásamaði vegna þess að sérhvert áfall fyrr í tímanum hækkar eftirstöðvarnar. Þess vegna er ríkisábyrgð á þessu allan tímann. Þetta er sem sagt ríkisábyrgð alveg frá byrjun og ég vona að menn fari ekki að tala um að menn taki ábyrgð á þessu 2016 eða eitthvað slíkt vegna þess að það er rökfræðilega vitlaust.

Ég fékk ekki svar við því hvaða áhættu við stöndum frammi fyrir, hvað gæti gerst ef t.d. neyðarlögin yrðu felld úr gildi. Hvað gerist ef Landsbankinn lendir í tjóni af því að allt það fólk sem er búið að tapa á honum, hlutabréfum og öðru slíku, fer í mál og fær kröfum sínum framgengt? Hvað gerist ef hann getur ekki borgað nema 5% af því sem hann skuldar innlánstryggingarsjóði?