139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði áhuga á að heyra álit hæstv. ráðherra á framgöngu Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, í þessu máli. Nú hefur stofnunin lýst því yfir að hún geri ekki athugasemdir við neyðarlögin eins og hæstv. ráðherra fór yfir áðan. Hún tók hins vegar upp á því hjá sjálfri sér á sínum tíma að setja ofan í við Íslendinga vegna Icesave-deilunnar og bar fyrir sig að ýmsir kröfuhafar hefðu kvartað undan mismunun. Nú gera menn ráð fyrir því að þegar búið er að fara í allar þessar viðræður og komið samningstilboð muni ESA hætta við að skamma Íslendinga fyrir framferði sitt í Icesave-deilunni. Hvers vegna eru þessi mál tengd að mati hæstv. ráðherra? Er eðlilegt að Eftirlitsstofnun EFTA tengi þau? Er þetta ekki sönnun þess að sú stofnun er miklu frekar pólitískt apparat en fagleg óháð stofnun?