139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það hefði verið fullt tilefni til, og sé enn, að gera athugasemdir við framgöngu þessarar stofnunar eins og annarra sem hafa tekið þátt í því að reyna að kúga Íslendinga í þessu máli enda er hér komin staðfesting á því að notuð voru önnur og ótengd mál til að þvinga fram niðurstöðu. Niðurstaða Íslendinga í viðræðum við Breta og Hollendinga hefur ekkert með einhverja kröfuhafa að gera, einhverja stóra erlenda banka sem hafa kvartað til ESA undan mismunun. Það að þau gefi í skyn þar á bæ, hjá ESA, að Íslendingar fái einhvers konar sakaruppgjöf með því að fallast á þessar kröfur er beinlínis órökrétt og sýnir hvernig þessi stofnun hefur verið notuð. Raunar hafa verið færð fyrir því rök, m.a. af norska lagaprófessornum Peter Ørebech, að Íslendingar megi ekki í tvíhliða viðræðum við Breta og Hollendinga sópa þessu máli undir teppið vegna þess að það varði fleiri en þá. Það var áhugavert að heyra álit hæstv. ráðherra á þessu. Höfum við heimild til að afgreiða þetta mál í einhverjum hliðarherbergjum með Bretum og Hollendingum einum þegar þetta varðar allt regluverk Evrópusambandsins og hina ýmsu kröfuhafa þar að auki?