139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:45]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá sannleikur sem liggur á borðinu er miklu betri en þeir samningar sem ríkisstjórnin ætlaði að láta þjóðina samþykkja. Því ber að fagna. Það er ótrúlegt að stjórnarandstöðunni hafi tekist ásamt ágætum félögum okkar úti í bæ að forða þjóðinni frá þessu áfalli. Því ber svo sannarlega að fagna.

Það sem ég varð hins vegar fyrir vonbrigðum með í ræðu hæstv. fjármálaráðherra var að enn örlaði á gamla hræðsluáróðrinum þó að hann sé miklu daufari en áður. Þar sagði hæstv. fjármálaráðherra að við yrðum að fá niðurstöðu. Að sjálfsögðu verðum við að fá niðurstöðu í þessu máli eins og öllum öðrum. En skiptir þá ekki öllu máli, hæstv. fjármálaráðherra, hver hún er?