139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Jú, niðurstöðurnar skipta að sjálfsögðu miklu máli en það getur líka skipt máli hversu lengi menn þurfa að bíða eftir þeim og hvernig mönnum líður á meðan. Maður veltir stundum fyrir sér, þótt það sé algerlega óskylt mál og langt í burtu, hvort deiluaðilar fyrir botni Miðjarðarhafs hefðu kannski ekki betur sýnt meiri samstarfsvilja fyrir 10, 20, 25 árum til að koma þar á friði og hvers menn væru búnir að njóta síðan ef það hefði tekist. Þannig er það nú.

Við skulum einfaldlega hafa það í huga og gleðjast þá yfir því að ytri aðstæðurnar í þessu máli hafa batnað. Það skiptir t.d. gríðarlegu máli hvort við reiknum núna út og teljum sæmilega traustar forsendur fyrir því að endurgreiðsluhlutfallið út úr búinu verði a.m.k. 86%, eða við notum það varfærna 75% mat sem var lagt til grundvallar útreikningum á eldri samningum. Þarna koma gríðarlegir fjármunir (Forseti hringir.) inn í dæmið og þeir berast fyrr til búsins en þá var reiknað með. (Gripið fram í: Þú varst …) Það skýrir t.d. — frú forseti, einhverjir eiga bágt hérna í salnum.

(Forseti (SF): Forseti biður hv. þingmenn að grípa ekki fram í.) (Gripið fram í.)