139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil að það sé skýrt að við hv. þingmaður erum alveg sammála um að góður samningur er nokkuð sem við hljótum öll að fagna ef hann fæst. Ef þetta er samningur sem við teljum í ljósi heildarhagsmuna þjóðarinnar að geti lagt grunn að endurreisninni og fært okkur nær blómlegri framtíð er ástæða til að fagna honum í öllum meginatriðum. (Gripið fram í.) Það þarf að vega þessa lagalegu áhættu og þá þætti sem ég rakti áðan.

Ég hef hins vegar áhyggjur af þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni fram til þessa, og maður hefur lesið aðeins um í fjölmiðlum og heyrt aðeins af á þinginu, sem gera lítið úr muninum á milli þessa samnings og hins fyrri. Mér fannst það t.d. koma fram í máli hæstv. forsætisráðherra í gær sem hélt að meginmunur samninganna væri lítils háttar vaxtamunur og svo einhver gengishagnaður sem hefði komið þessum samningi til góða. Það er stóralvarlegt ef menn sjá ekki muninn betur en þetta. Þeir sem halda því fram að það sé í sjálfu sér (Forseti hringir.) afskaplega lítill munur á þessum samningi og hinum fyrri hljóta að þurfa að spyrja sig: Er hægt að koma með slíkan samning fyrir þingið eftir að (Forseti hringir.) 98% þjóðarinnar höfðu hafnað samningi sem var þannig vaxinn?