139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þessi samningur sé fyllilega tilefni til að óska íslensku þjóðinni til hamingju í þröngri stöðu og sömuleiðis held ég að það megi óska þinginu og kannski sérstaklega stjórnarandstöðunni til hamingju með þennan samning. Ég ætla ekki að skafa neitt utan af því að ég tel að stjórnarandstaðan eigi mikinn þátt í því að við erum komin með niðurstöðu sem er miklu hagfelldari að öllu leyti en sú fyrri, bæði í upphæðum talið og að lagalegum umbúnaði. Ég skef ekkert utan af því. Ég ætla líka að nota þetta tækifæri og óska Indefence til hamingju með sinn þátt í þessu máli.

Það breytir ekki hinu að ég er þeirrar skoðunar að okkur beri skylda til að vinna okkur að niðurstöðu í þessu máli út frá hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Ég dreg það ekki í efa að Sjálfstæðisflokkurinn muni að lokum komast að þeirri niðurstöðu sem hann telur hagfelldasta fyrir íslensku þjóðina. Ég tel að eftir þá stöðu sem kom upp í byrjun ársins hafi þingið borið gæfu til að vinna mjög vel saman að þessu máli. Ég vil líka segja að ég tel að fulltrúi stjórnarandstöðunnar í samninganefndinni, Lárus Blöndal, hafi skipt mjög miklu máli í þessari vinnu allri. (Gripið fram í.) Hann var ekki í samninganefndinni. (Gripið fram í.) Þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skríður undir feld sinn eins og hann hefur að sjálfsögðu fullt leyfi til að gera, og er rétt af honum að gera til að gaumgæfa með hvaða hætti hann ætlar að taka á málinu, vil ég samt biðja hann um að íhuga þau orð Lárusar Blöndals, formanns samninganefndarinnar, sem hann mælti á blaðamannafundi, með leyfi forseta:

„Stjórnarandstaðan á nú töluverðan þátt í því að þetta ferli fór í gang og hefur auðvitað verið hluti af því allan tímann.“

Hann segir líka um stjórnarandstöðuna, með leyfi forseta:

„Hún er jafnmikill hluti af þessu eins og stjórnarflokkarnir.“ (Forseti hringir.)

Þessi samningur er nefnilega líka á ábyrgð stjórnarandstöðunnar og ég held að formaður Sjálfstæðisflokksins verði eins og aðrir að gangast við þeirri ábyrgð. Þetta er (Forseti hringir.) í stöðunni góður samningur og þótt ég sé ekkert að biðja um afstöðu tel ég að það verði mjög erfitt í þessari þröngu stöðu að ætla að hafna honum. (Gripið fram í.)