139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur þegar við förum út í samanburð að við berum saman sambærilega hluti. Það er tiltölulega fljótlegt, geri ég ráð fyrir, að láta reikna þennan nýja samning út ef hv. þm. Bjarni Benediktsson telur það hjálplegt í umræðunni þar sem við reiknum hann út miðað við 75% endurheimtur en ekki 86%, þar sem við reiknum hann út miðað við 12–15% veikara gengi en ekki það gengi sem er í dag, þar sem við reiknum hann út miðað við hægari inngreiðslur til búsins eins og gert var ráð fyrir í fyrra mati og skoðum þá niðurstöðu. Þá verður þessi lausn að sjálfsögðu miklu dýrari. (BJJ: Það er ekki … Það er talan sem skiptir máli. …) Það væru þá sambærilegir útreikningar og þeir sem ég hef heyrt hafða eftir ýmsum þingmönnum (BJJ: Það er ekki …) sem byggja á sambærilegri aðferðafræði við samanburðinn.

Ég hef hvorki séð forsendur útreikninga né rökstuðning sem tekur fram því sem samninganefndin sjálf og sérfræðingar hennar og reiknimeistarar, bæði innlendir og erlendir, leggja til grundvallar og þá kemur í ljós þessi munur upp á um 110 milljarða kr. án núvirðingar. Það getur auðvitað enginn nema framtíðin að lokum og endanlega svarað því hvernig við komumst frá þessu máli í krónum og aurum. Það er okkur öllum ljóst en það er um leið sú sama framtíð sem skiptir öllu máli. Eina bjargfasta sannfæringu hef ég og hef haft lengi gagnvart þessu máli, við þurfum að leysa það. Við þurfum að koma því einhvern veginn úr vegi þannig að við getum haldið áfram með það verkefni okkar að endurreisa Ísland og koma því á fæturna.