139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:22]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að okkur beri engin skylda til að leysa þetta mál. Við eigum ekki að leysa það ef ekki liggja á borðinu samningar sem eru samboðnir okkur sem fullvalda þjóð. Það var hins vegar skoðun ríkisstjórnarinnar að við ættum að leysa það þrátt fyrir þá ömurlegu samninga sem hér voru á borðum á síðasta ári.

Varðandi samanburðinn er það svo að í frumvarpinu er tafla sem ber saman gamla og nýja samninginn miðað við allar nýju forsendurnar og af því að hér er alltaf verið að tala um 110 milljarða kr. mun vakti ég athygli á því í ræðu minni áðan að þar væri miðað við tímapunktinn 2016 og samkvæmt nýja samningnum væri þá öllum greiðslum lokið en samkvæmt eldri samningnum hefði enn átt eftir að greiða marga tugi milljarða króna. Í þessari töflu kemur þetta nefnilega allt saman fram. 238 milljarða kr. heildarkostnaður miðað við allar nýju forsendurnar á eldri samninginn á móti 67 milljörðum kr. samkvæmt nýja samningnum. Þarna munar 170 milljörðum kr. jafnvel þótt við leyfum gamla samningnum að njóta hinna hagfelldu nýju aðstæðna. Eini samanburðurinn sem er eðlilegt að gera þegar stjórnmálamenn eru að tala saman, þeir sem bera ábyrgð á ákvarðanatökunni í þessu, er að skoða hvernig staðan blasti við þeim sem greiddu atkvæði með samningnum á þeim tíma. Það er eina leiðin til að átta sig á því í hvaða stöðu þingmenn voru þá og nú. Í upphafi voru áætlaðar heildargreiðslur 490 milljarðar kr. og er nema von að maður spyrji sig: Hvernig datt þessu fólki þetta í hug?