139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Ég hefði talið eðlilegt, virðulegi forseti, þegar verið er að reikna mismunandi greiðslu miðað við mismunandi samninga og mismunandi tíma miðað við hvenær vaxtagreiðslur falla o.s.frv. að samningar séu núvirtir. Ég hefði haldið að það skipti máli — (Gripið fram í.) ég hefði talið að það þyrfti að núvirða greiðslur miðað við hvenær þær falla í gjalddaga. Það er eðlilegt að það sé gert. Ég held líka að fyrst menn eru að skoða mismunandi samninga sem hafa verið gerðir á mismunandi tímum væri alveg ágætt að reikna út þennan 6,7% samning sem lá á borðinu í desember og (Gripið fram í.) sjá hvernig hann liti út. Síðan má alveg skoða það sem lá á borðinu en stjórnarandstaðan vildi ekki fallast á rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, þá lágu fyrir töluvert hagstæðir samningar og töluvert hagstæðari en þessir 5,5% samningar (Gripið fram í.) sem er verið að bera saman við. (ÓN: Hvaða samningur er það?)

Síðan er ekkert eðlilegra — ef ég les blöðin, ég t.d. tek miklu meira mark á Fréttablaðinu en Mogganum — (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Nú?) kom þetta mjög skýrt fram þar og var haft eftir Lee Buchheit að hann teldi að það hefði skelfilegar afleiðingar (Gripið fram í.) ef málið færi fyrir dómstólana. (Gripið fram í: … Moggann. )