139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:56]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var viðbúið að við mundum takast á um samanburðinn við eldri og nýja samninginn en þannig vill til að í frumvarpinu sem ríkisstjórnin hefur lagt fram er þetta allt tekið saman og hæstv. forsætisráðherra vill vísa í samantekt samninganefndarinnar en þá verður að halda því til haga að þar er miðað við stöðuna árið 2016 þegar nýi samningurinn hefur verið fulluppgerður en enn munu standa út af greiðslur vegna eldri samningsins þegar maður ber þá þannig saman. Þess vegna er mjög mikilvægt að á bls. 12 í þessu frumvarpi er búið að taka saman heildargreiðslur á samningstímanum og þær eru þannig 238 milljarðar kr. Munurinn er 170 milljarðar kr.

Ég ætla að nota þetta tækifæri til að geta þess að það mundi aldrei hvarfla að mér að ræða um möguleikann á því að styðja samning sem mundi kalla yfir okkur 238 milljarða kr. Jafnvel þótt aðstæður hafi breyst og (Forseti hringir.) séu okkur á ýmsan hátt hagfelldari væri kostnaðurinn samt fullkomlega óásættanlegur.