139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:57]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Það er hægt að fara með tölur á margvíslegan hátt og fá ýmsar niðurstöður eftir því hvaða forsendur menn gefa sér. Ég tek eftir því að sjálfstæðismenn vitna t.d. í frumvarpið sem var samþykkt í ágúst 2009 og fylgiskjal með því þar sem getið er um hvernig greiðslurnar mundu falla til á tímabilinu 2016–2024 og fá út úr því 480 milljarða kr. Þá eiga þeir eftir að gæta allrar sanngirni í því að miða við betri endurheimtur en nú er og líka miðað við að gengið var veikara. Þar vantar líka núvirðingu. Síðan er athyglisvert einmitt að í ágúst 2009, ég held að það sé alveg rétt hjá mér, samþykktu sjálfstæðismenn frumvarpið við 2. umr. eins og það lá fyrir þá og sátu hjá við 3. umr. (Forseti hringir.) Þar er þetta fylgiskjal að finna með þessum skelfilegu tölum sem þeir draga fram núna (Gripið fram í: … frumvarpinu.) sem eru 480 milljarðar kr. Það er hægt að leika sér með tölur, virðulegi forseti.