139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingasjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að hæstv. forsætisráðherra ber fyrir sig sjálfstæði þingsins og ég ætla að leyfa mér að rifja upp þessi ummæli ef í hart fer vegna þess að það hefur verið dálítil lenska í þessu máli, og sporin hræða, að það hefur verið kallað eftir ákveðnum hlutum frá ákveðnum húsum úti í bæ.

Önnur spurning sem ég vil bera fram við hæstv. forsætisráðherra varðar mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvernig mundi hæstv. forsætisráðherra líta á þann möguleika? Þá er ég ekki að vísa til þess að forseti Íslands mundi vísa þessu samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, heldur ef þingið mundi sjálft ákveða þegar og ef þetta frumvarp yrði samþykkt að vísa því til þjóðarinnar. Það er kallað mikið eftir því, þjóðinni finnst hún eiga mikið í þessum samningi eftir synjun hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég spyr hæstv. forsætisráðherra að þessu, sérstaklega í ljósi þeirra ummæla sem hún hefur sjálf viðhaft gegnum tíðina um nauðsyn þess að (Forseti hringir.) þjóðin fái að eiga síðasta orðið.

Rétt í lokin, frú forseti, vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi einhvern tíma íhugað afsögn út af þessu máli.