139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:20]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hingað upp í tilefni af orðum hv. þm. Þórs Saaris um að hér ætti að afgreiða frumvarpið sem til umræðu er í einhverju hasti eða æðibunugangi og fullvissa þingmanninn um að það stendur ekki til. Það hefur ekki verið rætt með þeim hætti á milli þingflokksformanna eða við forseta Alþingis, heldur hefur einmitt verið um það rætt að nú skuli skoða málið eins vandlega og þarf og um leið nýta þann tíma sem við höfum í jólahléi Alþingis til að leita umsagna, afla gagna og hefja vinnuna í fjárlaganefnd sem síðan verður fram haldið í janúar. En við verðum auðvitað líka að nýta þann tíma vel. Þó að það verði hlé á störfum Alþingis, væntanlega frá þessari helgi fram til 17. janúar, verðum við að nýta a.m.k. vikuna á undan 17. janúar til að undirbúa starfið hér. Ég held að það sé ósköp eðlilegur framgangsmáti, sanngjarn, faglegur og skynsamlegur.