139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:22]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er vert að ítreka hér að þó að gert verði hlé á þingfundum frá 17. eða 18. desember til 17. janúar sem eru heilar fjórar vikur starfa samt þingnefndir allt árið um kring og það er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að þingið og fjárlaganefndin þar með talin nýti þann tíma til að afla umsagna og gagna og síðan undir lok þess tíma hefja umfjöllun um frumvarpið þannig að það verði ekki á byrjunarreit þegar þing kemur aftur saman í janúar. Ég hygg að sú krafa sé einfaldlega gerð til okkar að við vinnum með þeim hætti og notum þá einmitt þennan tíma og þetta góða andrými sem gefst til að undirbúa vinnuna í nefndinni, hefja hana og undirbúa vinnuna sem þarf að fara fram milli 1. og 2. umr. eins vel og kostur er.