139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:25]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Enn einn ganginn erum við að ræða Icesave og í þetta skipti frumvarp til laga um heimild handa fjármálaráðherra til að staðfesta samningsdrög sem árituð voru af samninganefnd áttunda þessa mánaðar.

Það er eðlilegt að við horfum til baka til fyrri umræðu og það er eðlilegt að menn meti þennan samning í samanburði við aðra samninga og samningsumleitanir sem farið hafa fram. Réttilega er bent á að þessi samningur sé til muna betri en fyrri samningar og þar er ég sammála. Hann er að mínu viti áberandi betri og tekist hefur að sníða marga vankanta af fyrri samningum, ekki bara hvað varðar hina fjárhagslegu umgjörð málsins heldur líka ýmsa aðra þætti sem voru mér þyrnir í augum í fyrri samningum, svo sem um úrlausn deilumála í samningunum og aðra slíka þætti sem skipta máli til að það sé hafið yfir vafa að um sé að ræða samninga milli jafnrétthárra aðila þessara þriggja ríkja þar sem ríkin sammælast um samningsbundna niðurstöðu í erfiðu deilumáli en ekki á þann veg að gengið sé með óeðlilegum hætti að réttindum eins deiluaðila, þ.e. okkar Íslendinga.

Það er ljóst að þróun mála undanfarna mánuði og missiri hefur, þegar á heildina er litið, hjálpað okkur og greitt fyrir því að við næðum betri samningum. En það er líka eðlilegt að spurt sé af hverju aðstæður hafi batnað, skuldatryggingaálag á landið lækkað og hvers vegna hrakspár um erfiðar afleiðingar þess ef ekki yrði samið um málið hafi ekki ræst. Ég held að það sé mikilvægt að gæta sanngirni í allar áttir í þessu efni.

Það hefur ekki verið útlátalaust fyrir okkur sem samfélag að ekki hefur verið gengið frá þessu máli. Við vitum að það hefur truflað fyrirtæki í lánsfjáröflun á erlendum mörkuðum. Sú staðreynd að það hefur ekki verið leyst hefur truflað fjármögnun stórverkefna og stórframkvæmda og stór orkufyrirtæki hafa átt í erfiðleikum, t.d. á alþjóðlegum mörkuðum. Við vitum líka að einstök fyrirtæki hafa nefnt þetta mál, og þá staðreynd að það hefur ekki verið leyst, sem vandamál, nú síðast forstjóri Össurar þegar það fyrirtæki flutti skráningu sína úr íslensku kauphöllinni. Við höfum hins vegar lagt mikið á okkur til að tryggja að neikvæð áhrif þess að ekki hafi verið samið um þetta mál yrðu sem minnst. Við höfum beitt okkur af miklu afli til að tryggja áframhaldandi fyrirgreiðslu af hálfu Norðurlandanna og áframhaldandi fyrirgreiðslu af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en það hefur líka verið á þeirri forsendu að fyrirheit hafa verið gefin af hálfu íslenskra stjórnvalda, með aðkomu forustuflokka stjórnarandstöðunnar, um að unnið yrði að sanngjarnri samningsúrlausn málsins. Sú staðreynd að við höfum verið í samningaviðræðum hefur með öðrum orðum valdið því að hinar neikvæðu afleiðingar hafa ekki komið fram eins og ella hefði verið ástæða til að óttast. Að því leyti má segja að við höfum búið við ákveðið svikalogn undanfarna mánuði, þ.e. okkur hefur tekist að hafa stjórn á aðstæðunum og tryggja ákveðinn framgang okkar mála en á móti kemur að við höfum ekki komist eins vel áfram í efnahagslegri endurreisn og við hefðum viljað og við hefðum mögulega getað gert ef um þetta mál hefði verið full sátt og friður og það komið út úr heiminum sem ágreiningsefni.

Það er hins vegar líka ljóst að sú atburðarás sem hófst með því að forseti synjaði lögum um síðasta samning staðfestingar skapaði ný færi til samninga. Mikilvægasta atriðið í því var þegar forustuflokkar stjórnarandstöðunnar komu að málum og lýstu sig tilbúna til að vinna að samningsbundinni lausn málsins, í janúarmánuði á þessu ári, og reyna að tryggja sem best samningsbundna lausn þar sem gætt væri að fullu og öllu að grundvallarhagsmunum Íslands. Það er alveg ljóst að sú aðkoma skipti miklu máli og ber að þakka fyrir með hversu þroskuðum hætti forustuflokkar stjórnarandstöðunnar komu að því máli. Fundur formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og fjármálaráðherra með viðsemjendunum í Haag í lok mánaðar markaði upphaf þeirra samningaviðræðna sem nú hafa skilað þessum ágæta samningi.

Virðulegi forseti. Það hafa alltaf verið rík rök fyrir samningum í þessu máli og því hafa verið gerðar margar tilraunir til að semja um það allt frá upphafi. Allir sem að því hafa komið hafa talið samningaleið betri en aðrar leiðir til að leiða þessa deilu til lykta. Enginn hefur fært betri rök fyrir því en formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu um mánaðamótin nóvember/desember 2008, þar sem hann greindi hætturnar af því að fara ekki samningaleið og hina augljósu kosti af samningum.

Með þeim umbúnaði sem við höfum náð um þetta mál frá og með lokum janúar á þessu ári höfum við náð að skapa samningaumleitunum eins góða umgjörð og mögulegt er. Ég held við getum öll verið sammála um að sú samningsniðurstaða sem nú liggur fyrir er sú besta sem hægt var að fá. Allur umbúnaður um samningaferlið greiðir fyrir því að við getum komist að þeirri niðurstöðu. Það hefur því verið mjög mikilvægt að leggja þennan nýja grunn að samningaviðræðum þar sem við höfum nýtt sameiginlega slagkraft stjórnar og stjórnarandstöðu í samningaviðræðunum undanfarna mánuði.

Hafandi svarað þeirri spurningu hvort hægt sé að ná betri samningi neitandi held ég að við verðum að viðurkenna að við séum komin að endamörkum hvað það varðar að meta hvort við viljum samþykkja þann samning sem nú liggur á borðinu eða ekki. Við getum tekið áhættu. Við getum hafnað þessum samningi og þá viðhaldið óvissu um efnahagslega endurreisn á næstu mánuðum og missirum og aukið á hana. Þá þurfum við líka að meta áhættuna af því að standa með þessa deilu opna í ágreiningi við nágrannaríki okkar og hafa misst það forræði sem fylgir alltaf úrlausn deilumála þegar maður semur um niðurstöðuna en lætur ekki skeika að sköpuðu fyrir dómi. Það er nefnilega alveg rétt sem formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í áður tilvitnaðri ræðu að menn sem leggja í dómsmál verða alltaf að vera tilbúnir að tapa því máli og ég minni á varnaðarorð Lees Buchheits þess efnis að mikil áhætta væri því samfara ef sú leið yrði farin.

Sú afstaða skapar líka þann vanda að við horfum þá á áframhaldandi efnahagslega kyrrstöðu, endurreisnin mundi þá tefjast frekar. Það besta sem við getum vonast til er að geta viðhaldið með einhverjum hætti þeirri takmörkuðu fyrirgreiðslu sem við höfum náð að tryggja en við getum ekki stigið skref í átt að afnámi gjaldeyrishafta eða með öðrum hætti losað efnahagslífið úr þeim viðjum sem það er fast í í kjölfar efnahagshrunsins á meðan þetta mál er óleyst. Það er sannarlega samhengi á milli þess að hafa Icesave-málið óleyst og þess að létta af gjaldeyrishöftum.

Ég held að við eigum heldur ekki að vanmeta hættuna af bið. Bið er ekki alltaf hættulaus. Það er eðlilegt að menn velti því upp hvort okkur liggi nokkuð á. Getum við alltaf beðið okkur til ávinnings? Ég held að sagan sýni að svo sé ekki. Það er samsetning í þessu máli — við stöndum núna við betri aðstæður vegna tveggja samverkandi þátta. Að hluta til hafa aðstæður breyst og við náðum að opna nýjan feril í samningaviðræðunum með aðkomu allra stjórnmálaflokka í lok janúar. Við höfum líka náð að sæta lagi og koma samningaviðræðunum áfram þegar tækifæri hafa gefist. En við getum líka alveg séð að það er ekkert öruggt í því efni. Það er óvissuástand í Evrópu. Bretar eru að veita lán til Íra á miklu hærri vöxtum en þau kjör sem okkur bjóðast í þessum samningi og við höfum séð áður í þessu ferli að tilboð hafa verið dregin út af borðinu vegna breyttra aðstæðna á mörkuðum. Besta dæmið var tilboðið um lægri vexti sem glitti í fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna sem var síðan dregið út af borðinu. Þegar hægt var að opna samninga aftur í júnímánuði kom það skýrt fram af hálfu viðsemjendanna að það tilboð væri ekki lengur á borðinu og það yrði að semja á öðrum vaxtaforsendum vegna þess að aðstæður væru nú aðrar, meiri áhætta í umhverfinu. Það tók langan tíma að koma mönnum aftur í áttina að þeim tilboðum sem sett höfðu verið fram fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í upphafi mars.

Það er því sannarlega þannig, eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur nefnt, að þessi samningsniðurstaða er gæs á flugi. Við eigum að grípa hana vegna þess að hún er sannarlega besta samningsniðurstaða sem hægt er að fá og sú óvissa sem frekari frestun málsins hefði í för með sér er óásættanleg. Hún er óásættanleg fyrir okkur sem þjóð. Hún mun koma í veg fyrir efnahagslega endurreisn, hún mun torvelda hana, hún mun seinka því að við getum byrjað á afnámi gjaldeyrishafta og hún mun seinka því að fyrirtækin fái eðlilega fjármögnun og að við náum að endurreisa eðlilegt viðskiptalíf í landinu. Þess vegna er ég bjargfastlega þeirrar skoðunar að við eigum að samþykkja það lagafrumvarp sem hér hefur verið lagt fram og ég bind vonir við að við náum eins víðtækri samstöðu um það og kostur er.

Á undanförnum missirum hafa allir flokkar tjáð mikilvægi þess að ná góðum samningi og enginn flokkur hefur útilokað samninga. Allir hafa sagt að samningsniðurstaða yrði að vera góð og það yrði að verja hagsmuni Íslands. Ég er sannfærður um að það hefur nú verið gert. Ég held því að við skuldum þjóðinni það að leggja til hliðar kryt, ná saman um þessa niðurstöðu og koma henni í heila höfn. Það yrði mikil og góð gjöf til þjóðarinnar nú og mundi greiða fyrir efnahagslegri endurreisn á næstu missirum.