139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Ekki er deilt um það að þessi samningur er miklu betri en þeir fyrri þó að margir hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn hafi hvatt til þess að þeir yrðu samþykktir um leið og þeir lágu fyrir og jafnvel þó að margir hafi ekki einu sinni lesið þá.

Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju við lentum í þessum miklu pólitísku átökum um málið. Um er að ræða sameiginlega hagsmuni okkar sem Íslendinga og við hefðum átt að geta staðið saman um að verja landið okkar hvar sem við stóðum í pólitík. Ég hef haldið því fram að feillinn liggi fyrst og fremst í því að pólitískir fulltrúar flokkanna voru skipaðir í samninganefndina — við þekkjum þau nöfn sem leiddu fyrri samninganefndir — og ég spyr hvort það geti verið ástæðan fyrir því að menn voru tilbúnir til að verja mjög vondan samning, um það er ekki deilt.

Það skilar okkur nú miklum ávinningi að menn fóru í þessa sameiginlegu vegferð eins og hæstv. ráðherra fór mjög vel yfir í ræðu sinni áðan. Það skilar árangri að við fengum í þetta fagmenn sem voru fulltrúar stjórnmálaflokkanna en ekki einhverjir pólitískir gæðingar — getur hæstv. ráðherra tekið undir það með mér að það sé hugsanlega ástæðan fyrir því að margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar voru tilbúnir að verja þessa samninga eins og þeir lágu fyrir þó að þeir væru algerlega óásættanlegir?

Við bentum margoft á það í stjórnarandstöðunni að það væri alltaf verið að hóta okkur og svo værum við alltaf að rífast innbyrðis — getur hæstv. ráðherra þá tekið undir að það gæti hafa verið feill að hafa skipað pólitíska fulltrúa í þetta og að við sitjum þá hugsanlega í fyrsta skipti sem jafningjar við borðið núna?