139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:46]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði að það er ekki þannig að meðferð ríkisstjórnarinnar á málinu hafi verið hafin yfir gagnrýni, það hef ég sagt frá upphafi. Það er fullkomlega eðlilegt og málefnalegt að gagnrýna það en sú aðferð sem við höfum beitt þessi síðustu missiri hefur skilað okkur góðri niðurstöðu.

Ekki er hægt að halda því fram að við höfum ekki haft neitt tjón af biðinni. Ég held að það sé mjög langt gengið að halda að það sé enginn kostnaðarliður á móti ávinningnum sem við erum að fá núna. Menn geta svo þrætt um það hver hann er nákvæmlega og gefið sér ólíkar forsendur í því en það er hafið yfir vafa að þetta mál óleyst hefur tafið endurfjármögnun, hefur komið í veg fyrir að endurreisnin yrði jafnöflug og hún hefði getað orðið á þessu ári og ef við höldum áfram að bíða þá er ég sannfærður um að við bíðum okkur til mikils tjóns.

Ástæðan fyrir því að ég samþykkti samninginn var ekki sú að samningurinn væri hörmulegur, eins og hv. þingmaður segir, heldur var ég sannfærður um að það þyrfti að leysa málið og þetta væri ásættanlegur samningur með nákvæmlega sömu rökum og forusta Samtaka atvinnulífsins gerði. Við mátum hagsmunina einfaldlega þannig. Ég gleðst yfir enn betri niðurstöðu en ég undirstrika að það er tjón þar á móti og biðin kostar líka.

Samfylkingin setti ekki fram einhverjar heimsendaspár. Samfylkingin lagði fram raunsætt mat á því hver gæti orðið afleiðingin af því að leysa þetta mál ekki. Okkur hefur tekist að koma í veg fyrir að þær afleiðingar kæmu fram síðasta ár með ærinni vinnu og með ærinni fyrirhöfn. Við höfum þannig kríað út úr Norðurlöndunum lánafyrirgreiðslu. Jafnvel þó að þeim sé varla stætt á því, út frá þeim lagagrunni sem þau byggja heimildir sínar á, þá höfum við fengið frá þeim þá fyrirgreiðslu. Sú fyrirgreiðsla gerir okkur meðal annars kleift að lofa því að greiða vextina jafnóðum, hún er lykillinn að því að við getum yfir höfuð skrifað undir svona samning. Við höfum líka fengið fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en alltaf á þeim forsendum að við séum að reyna að semja um málið þannig að ef við semjum ekki um það (Forseti hringir.) kemur að skuldadögum. Það er ekki þannig að það hafi verið útlátalaust að bíða og það er ekki þannig að það hafi verið sjálfgefið að það kæmu engar neikvæðar afleiðingar (Forseti hringir.) af biðinni fram.