139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:46]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir málefnalega spurningu. Tvímælalaust rúmast þessi samningur þar innan, það er algjörlega ljóst. Í þeim efnahagslegu fyrirvörum sem settir voru sem kváðu á um hvað við mundum borga að hámarki af landsframleiðslu, tímalengdir og annað slíkt vorum við að tala um allt aðrar upphæðir. Mig minnir að eftir að efnahagslegu fyrirvararnir voru komnir inn hafi sá samningur hljóðað upp á 350 milljarða kr. á móti 47 núna.

Stutta svarið er að þeir efnahagslegu fyrirvarar sem komu inn fyrir tilstilli stjórnarandstöðunnar mundu tvímælalaust innihalda þessa samninga. Jafnframt er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ef fram heldur sem gert er ráð fyrir í þessum samningum stafar okkur engin efnahagsleg hætta af samningunum. Einhverjir stórkostlegir hlutir þurfa að gerast til að svo megi verða.

Það er aftur á móti ekki fullnægjandi. Það er nauðsynlegt skilyrði en það er ekki nægjanlegt skilyrði. Nægjanlega skilyrðið er að við verðum að geta svarað fyrir okkur. Ber okkur lagaleg skylda til að standa við þessa samninga? Ef ekki, er ábatinn af því að samþykkja þá þrátt fyrir það svo mikill að við séum tilbúin til að leggja í þá?