139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Enn stöndum við hér og getum ekki annað í þessu Icesave-máli. Mig langar í upphafi máls míns að rifja aðeins upp þá stöðu sem málið hefur verið í og bera það síðan saman við þann samning sem við höfum í dag og þá efnismeðferð sem ég tel að það mál þurfi að fara í.

Eins og ég tók til orða í upphafi þessa máls á sumardögum 2009 þá minntist ég á að við stæðum frammi fyrir einu stærsta og alvarlegasta máli sem íslensk þjóð hefði staðið frammi fyrir og mjög mikilvægt væri að við mundum berjast fyrir hagsmunum þjóðarinnar helst öll sem ein hjörð í þinginu. Því miður var því ekki að heilsa. Ef við rifjum upp hvernig málið kom í þingið þá kom það inn með látum, allt í einu var tilbúinn samningur sem strax við fyrstu sýn virtist algerlega óásættanlegur og vinna þingsins sumarið 2009 snerist um að greina hvaða þætti mál þetta snerti.

Hægt var að halda því fram þá þegar, og við framsóknarmenn gerðum það, að samningurinn væri ekki aðgengilegur eins og hann leit út þá og þrátt fyrir alla pólitík, flokkapólitík og ágreining sem varð um undirbúninginn, aðdragandann og hvernig málið kom inn í þingið, snerist Icesave-málið fyrst og fremst um tvennt, annars vegar réttlæti og hins vegar greiðslubyrði og gjaldþol íslensku þjóðarinnar.

Frú forseti. Frá þessum tíma, á sumardögum 2009, hefur mikið vatn runnið til sjávar og við höfum margsinnis farið yfir málið. Skoðun mín og okkar framsóknarmanna hefur verið ljós lengi og við höfum fengið stuðning við þá skoðun okkar, bæði frá mörgum utan þings og innan, að við hefðum þurft að semja aftur, henda því skjali sem þegar lá fyrir og kom inn í þingið í byrjun júní 2009, og fara svo eftir það yfir málið í þinginu og setja við það ýmsa fyrirvara, bæði efnahagslega til að reyna að tryggja að íslenska þjóðin gæti borið þá samninga og eins varðandi réttlætishliðina, þ.e. lagalegu hliðina. Við nefndum strax á þeim sumardögum að henda ætti því skjali sem þá var til komið, setja ætti samninganefndina sem þá var að vinna málið af og fá til þess aðra og hæfari samninganefnd. Í því sambandi nefndum við strax sérfræðinginn Lee Buchheit sem við töldum mjög mikilvægt að fá til verksins. Hann hafði komið að málinu, kom m.a. fyrir fjárlaganefnd þetta sumar og hann lýsti því þá yfir að það skipti í raun engu hvað við gerðum á þeim tíma, niðurstaðan yrði alltaf sú sama að nauðsynlegt væri að fara aftur til Breta og Hollendinga og semja að nýju, því að sá samningur sem þá lá á borðinu væri einfaldlega slæmur og óaðgengilegur fyrir íslenska þjóð.

Virðulegi forseti. Frá upphafi þessa máls hafa fjölmargir aðilar utan þings lagt gríðarlega vinnu í að skoða það og koma með athugasemdir, tillögur og ábendingar, reikna út áhættu og skoða þá þætti sem þar hafa verið. Mér finnst tilhlýðilegt að minnast á það hér og er á engan hallað þegar nefndur er sérstaklega Indefence-hópurinn sem var óþreytandi, og er enn að skoða samningana og benda á galla, í að benda á hættur við samninginn og koma með tillögur um hvernig við gætum staðið í fæturna gagnvart þeirri ógn sem við stóðum frammi fyrir.

Það væri hægt að rifja upp hér með hvaða hætti ríkisstjórnin reyndi að koma þessu máli í gegnum þingið með ýmsum og ótrúlegum hætti. Ég veit ekki hvort þingheimur man eftir bréfi hæstv. forsætisráðherra til forsætisráðherra Bretlands og Hollands. Það má líka nefna tilgreindar dagsetningar, að ef ekki væri búið að ljúka málinu fyrir tiltekinn tíma steðjuðu sérstakar ógnir að íslenskum efnahag, við mundum ekki geta staðið við samninga, við stæðum ein í heiminum o.s.frv. En ekkert gerðist þrátt fyrir allar þessar hótanir og satt best að segja var málflutningur til að mynda okkar framsóknarmanna og fleiri þess efnis að málið mundi eingöngu hafa gagn af því og batna við að bíða. Sérfræðingurinn sem ég nefndi áður, Lee Buchheit, sem síðar varð formaður samninganefndarinnar, hafði einmitt nefnt að það væri hreinlega æskilegt að við ættum að bíða þess að sjá hvaða heimtur yrðu úr þrotabúi Landsbankans til að vita hvaða skuldbindingar við værum að taka á okkur, því að þær voru á þessum tíma bæði sumarið 2009 og fram eftir vetri nokkuð óljósar og eru það auðvitað að einhverju leyti enn.

Berum svo saman hvað hefur áunnist frá því að við stóðum hér í atkvæðagreiðslunni 30. desember 2009 og urðum því miður undir því að ríkisstjórnin náði að koma málinu í gegnum þingið. Á meðan á því stóð safnaði Indefence-hópurinn, eins og allir muna, gríðarlegum fjölda undirskrifta þess efnis að forseti Íslands sendi málið í þjóðaratkvæðagreiðslu sem forsetinn varð síðan við. Í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu höfnuðu 98% þeim afleitu samningum sem ríkisstjórnin hafði komið með og ég býst við að enginn af þeim stjórnarliðum sem þá tóku til máls hafi sérstaklega gaman af að rifja upp orð sín frá þeim tíma.

Hvað þurfum við að gera nú þegar við höfum þennan bunka fyrir framan okkur? Það er auðvitað augljóst, og við hljótum að hafa lært það af þessari reynslu, að við þurfum að taka þann tíma sem til þarf. Við þurfum að fara í gegnum 1. umr. í þinginu í dag, velta upp álitamálum, vísa málinu síðan til fjárlaganefndar sem eðlilega þarf að senda það út til umsagnar. Það er mikilvægt og það hefur komið fram í ræðum þingmanna í dag og reyndar í máli hæstv. forsætisráðherra líka að ekkert standi í vegi fyrir því að sá tími verði gefinn og það sé tryggt að fjárlaganefnd geti leitað til þeirra ráðgjafa sem hún telur nauðsynlega og fengið þau gögn sem nauðsynleg eru til að grandskoða samninginn og aðstoð því að þetta eru flóknir samningar.

Álitamálin sem uppi eru í samningnum í dag eru mörg þau sömu og áður. Það er gengisáhætta, neyðarlögin eru enn ekki að fullu staðfest, það hefur komið fram að til að mynda heildsöluinnlán upp á 170 milljarða plús eru forgangskröfur hjá Glitni en því var hafnað í Landsbankanum og það er auðvitað dómsmál þar um. Þar mundi höfuðstóllinn hækka um 170 milljarða. Innstæðutryggingarsjóðurinn á um 52% af eignunum þannig að þá hækkar auðvitað krafan á hann líka um helminginn af þeirri upphæð.

Síðan eru heimtur úr þrotabúi Landsbankans. Þó að þær sögusagnir séu góðar höfum við fyrst og fremst orð skilanefndarinnar til að treysta á. Ekkert okkar hefur séð þann lista og satt best að segja ekki neinir aðrir heldur. Þar er auðvitað áframhald á áhættu, til að mynda ef hagvöxtur í Evrópu og Bretlandi yrði eitthvað breytilegur, ef hann yrði neikvæður, það mun skipta miklu hvort hann er 0 eða 2% eða 3%. Ef hann yrði til að mynda með sama hætti og á Íslandi en eins og við þekkjum var spáð hér rúmlega 3% hagvexti á næsta ári en hann er núna kominn niður í 1,9% og meira að segja hagfræðingar hjá Evrópusambandinu spá hér 0,7% hagvexti. Það mun því skipta gríðarlegu máli hver hagvöxturinn í Evrópu er.

Við ræddum talsvert í fyrri samningum um svokallaðan Ragnars H. Halls-fyrirvara. Hann er ekki inni í samningnum beint en það er dómstólaleið sem virðist vera hægt að koma honum að. Hann mun skipta gríðarlegu máli eins og hann gerði í fyrri samningum, upp á tugi milljarða.

Eitt álitamálið snertir það hversu lengi við þurfum að bíða eftir að útgreiðslur hefjist úr þrotabúinu og vaxtaupphæðin mun auðvitað fara eftir því. Það eru því fjölmörg álitamál sem bíða fjárlaganefndar að fara yfir áður en málið getur komið aftur til 2. umr. og meiri efnislegri umræðu en við getum verið með í dag eftir þann skamma tíma sem við höfum haft til að skoða þennan bunka.

Það er kannski líka rétt að rifja upp, herra forseti, með hvaða hætti stjórnarliðar töluðu, nánast allir með fáum undantekningum, fjölmiðlamenn og ýmsir álitsgjafar, og í raun og veru held ég að það sé ekki ósanngjörn krafa að fara fram á að þetta fólk biðji þjóðina afsökunar á því að hafa lýst því yfir að hér yrði ísöld, Kúba norðursins og hvað það var annað sem menn lýstu yfir, frysting erlendrar lánafyrirgreiðslu m.a., sem eins og við vitum hefur síðan reynst vera rangt, og skuldatryggingarálag færi hér í hæstu hæðir o.s.frv. Allt hefur þetta reynst rangt og þeir sem voru hvað orðhvatastir og notuðu hvað stærst orð um þetta skulda þjóðinni einfaldlega afsökunarbeiðni fyrir hafa hrætt hana til að trúa því í einhvern tíma, alla vega einhvern hluta hennar, að það væri réttlætiskrafa og nauðsynlegt fyrir Ísland að gangast undir þessa samninga.

Það er líka rétt að muna hverjir hafa bent á réttu leiðirnar og þar stöndum við framsóknarmenn framarlega sem og aðrir í stjórnarandstöðunni. Ég hef minnst á Indefence-hópinn og bæði innlendir og erlendir lögspekingar sem og hagfræðingar ýmsir hverjir hafa komið þar að máli að ógleymdum forsetanum sem tryggði það að lokum að málið fór til þjóðarinnar sem síðan hafnaði því algerlega.

Talsvert hefur verið rætt um hverju munar á þessum samningum. Í upphæðum er alveg hægt að fara með það að Jón Daníelsson, hagfræðingur við London School of Economics, skrifaði grein í fjölmiðla í janúar á þessu ári, 2010, þar sem hann reiknaði út á þáverandi gengi og þáverandi skilum að sá samningur sem síðan fór í þjóðaratkvæðagreiðslu kostaði þjóðina um 524 milljarða, ef ég man rétt. Munurinn á þeim og 67 milljörðunum sem talað er um núna er ansi há tala eða 450 milljarðar.

Það kom líka fram í máli Lees Buchheits, formanns samninganefndarinnar, að þegar hann kom að málinu fyrst hélt hann að það væri ekki stór vandi að leysa úr þessu máli á stuttum tíma en komst að því að þarna voru tveir verulega háir veggir sem þurfti að komast yfir. Annar var sá að fyrri samningurinn var einfaldlega þannig að þar voru tvær herraþjóðir, Bretar og Hollendingar, sem litu á Íslendinga sem sakamenn og gerðu við þá samning sem hreinlega sagði: Þið eigið að gera þetta, svona skal þetta vera og ef þið standist það ekki eigum við möguleika á að koma með ítök inn í eignir ykkar og sitthvað í þeim dúr. Það tók nokkra mánuði að fara ofan af þessu. Það sem við þurfum að gera núna er að tryggja að engar af þeim kvöðum sem voru í gamla samningnum séu í þeim nýja, þ.e. gamla sakamannasamningnum sem samningamenn hæstv. fjármálaráðherra komu með. Nýi samningurinn er þá kannski samningur þjóða á jafnréttisgrundvelli sem lýsa því yfir að þær beri sameiginlega ábyrgð á því klúðri sem evrópska tilskipunin um innstæðutryggingarsjóði er. Hinn þátturinn var viðskiptasamningur með ávinningi, þ.e. þess vegna voru vextirnir svo háir. Við sjáum það til að mynda á þeim vöxtum sem Írum eru boðnir í dag að þar er vaxtaprósentan þannig að menn ætla að græða á Írum. Það átti jafnframt við um okkur en núna er samningurinn með þeim hætti að menn lýsa því yfir að þetta sé sameiginleg áhætta sem menn verði að taka á sig.

Herra forseti. Í lok ræðu minnar ætla ég einfaldlega að segja að aðalatriðið er að við vöndum okkur, að við hættum að hóta ragnarökum (Forseti hringir.) þótt málið sé óleyst. Það hefur sýnt sig að það borgar sig að fara vel yfir þetta mál. Lee Buchheit, formaður samninganefndarinnar, taldi best að fara með málið fyrir dómstóla, við gætum unnið það, en við verðum alla vega (Forseti hringir.) að skoða bæði kosti og galla mjög vel.