139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur ýmislegt verið sagt um breytingarnar sem hafa verið gerðar á samningunum sem við höfum verið með til umfjöllunar upp á síðkastið og kennt er við innlánsreikninginn Icesave. Það sem vakti mesta athygli mína við upphaf umræðunnar í dag var að fylgjast með þeim breytta manni hæstv. fjármálaráðherra þegar hann fylgdi þingmálinu úr hlaði sem við ræðum, Icesave-málinu. Horfinn var sá hæstv. fjármálaráðherra sem talaði fullur af baráttuþreki, sjálfsöryggi og sannfæringarkrafti þegar hann reyndi að koma gömlu samningunum sem hann bar fulla ábyrgð á í gegnum þingið. Ekki bara þegar hann mælti fyrir þessum samningum á sínum tíma heldur líka þegar hann tók til varna eftir að nokkuð leið á umræðuna. Ég tala ekki um þegar hann fylgdi málinu úr hlaði þegar það var afgreitt rétt fyrir síðustu áramót. Hæstv. ráðherra sagði sem svo að hann væri sannfærður um að þetta væri það besta sem hægt væri að bjóða upp á. Sannfæringarkrafturinn var gersamlega horfinn og hér talaði maður sem var bugaður af fortíðinni.

Það hefur verið vakin athygli á því að stjórnarliðar eru ekki fjölmennir, hvorki í þingsalnum í dag né fyrirferðarmiklir í ræðustól Alþingis undir þessari umræðu. Ég skil það vel og ég ætla að segja að þetta er á vissan hátt stjórnarliðum til hróss því þetta segir okkur eitt: Þeir eru ekki samviskulausir, þeir kunna þó alla vega að skammast sín. Auðvitað hlýtur þessum mönnum að vera þannig innan brjósts núna þegar þeir standa frammi fyrir því að hér liggja á borðum okkar þingmanna drög að nýjum samningi sem er margfalt betri en þeir tveir sem hæstv. ríkisstjórn lagði fyrir Alþingi fyrst um mitt ár 2009 og síðan á haustdögum sama árs. Um það þarf ekki að deila. Það er hálfhjákátlegt að heyra að deilurnar snúast um það hversu mörg hundruð milljörðum þessi samningsdrög eru betri en þeir tveir samningar sem hæstv. ríkisstjórn bar hér á borð, lýsti yfir í upphafi að væri glæsileg niðurstaða og reyndi að sannfæra okkur um að þetta væri það besta sem til væri í stöðunni. Þetta er gróflega dapurlegt og segir okkur mikla sögu.

Það er annað athyglisvert í þessu. Það sem við ræðum núna er ekki samningur. Hæstv. ríkisstjórn hefur gert tvo Icesave-samninga. Hún er eina ríkisstjórnin sem hefur gert samninga um Icesave. Fyrri ríkisstjórn gerði það ekki þó að stöðugt sé verið að reyna að ljúga því í þingsalnum að fyrrverandi ríkisstjórn hafi gert slíka samninga. Það er einfaldlega rangt. Það sem við höfum hér á borðum er slitur, eru drög. Þetta er ekki eiginlegur samningur og af hverju skyldi það vera? Það er vegna þess að viðsemjendur okkar í þessu máli, Bretar og Hollendingar, líta ekki þannig á að þeir séu að semja við fullburðuga ríkisstjórn í fullvalda ríki. Þeim er það algerlega ljóst að ríkisstjórn Íslands hefur ekki vald á þessu máli. Það sem gerðist í dag í atkvæðagreiðslunni um fjárlögin hefur nú þegar borist út fyrir landsteinana til samningsaðila okkar og þeim er mætavel ljóst að ríkisstjórnin er komin að fótum fram, hún skríður áfram í störfum sínum. Það er ótrúlegur áfellisdómur að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að ljúka þessum samningi sem hún þó segir að sé mun betri en það sem áður var lagt fyrir okkur á borðin og hefur greinilega hvorki afl né myndugleika og enn þá síður traust hjá viðsemjendum sínum sem nægir til að það sé hægt að ganga frá þessum samningi. Ég get ekki ímyndað mér meiri lítilsvirðingu gagnvart nokkurri ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem fer til samninga við aðrar þjóðir og lýkur samningaviðræðunum með þeim hætti sem hún telur boðlegt en getur ekki fengið undirskrift undir samningana þrátt fyrir að báðir samningsaðilar séu sammála að þetta sé það sem menn vilja sameinast um, getur ekki fengið samningsundirskrift undir þetta vegna þess að ríkisstjórnin á Íslandi er ekki fullmektug til að ljúka málinu. Það segir okkur allt sem segja þarf í þessum efnum.

Hér hefur verið nokkuð þráttað um það hvað eigi að bera saman þegar við erum að velta fyrir okkur þessum samningsdrögum sem liggja fyrir og samningunum tveimur sem áður voru lagðir fyrir Alþingi. Svarið er augljóst og einfalt. Það sem á að bera saman eru tölurnar sem lagðar voru fram annars vegar við samningana sem ríkisstjórnin kynnti í frumvarpsformi um haustið 2009 og síðan tölurnar sem liggja hér til grundvallar. Þá er þetta alveg augljóst mál eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði áðan. Í fyrstu samningunum var gert ráð fyrir því að heildargreiðsla með vöxtum yrði 490 milljarðar kr. og í samningum nr. tvö rúmlega 400 milljarðar en nú er verið að tala um 47. Þetta er munurinn, tífaldur munur eða nálægt því. Þetta er það sem við eigum að bera saman og þá er samanburðurinn býsna auðveldur.

Ég ætla að leggja pínulitla lykkju á leið mína. Fyrsti samningurinn hefur með ósanngjörnum hætti verið kallaður Svavarssamningurinn. Það er ekki sanngjarnt að gera það. Það hlýtur að vera þannig að þessi samningur hafi verið gerður á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Þetta er samningur hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Sigfússonar. Það eru þau sem bera ábyrgð á þessu máli.

Stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir og þurfum að svara er ekki einföld Hún er þessi: Eigum við yfir höfuð að semja? Við gerum okkur grein fyrir því og vitum að það eru engar samningsskuldbindingar á okkar herðum. Það eru engin lagaleg rök sem hníga að því að okkur beri að greiða þessa skuld. Ástæðan fyrir því að við höfum sinnt því að ræða við Hollendinga og Breta er einfaldlega þessi: Menn hafa viljað láta á það reyna hvort hægt sé að komast að viðunandi niðurstöðu sem geti leyst úr þessari deilu. Við þekkjum það úr daglega lífinu. Menn standa kannski frammi fyrir lögfræðihótunum sem þeir vita innst inni að ekki er innstæða fyrir en kjósa engu að síður að leita samkomulags. Það getur verið lögmæt ástæða. En þá verða menn í lok dagsins og við lok slíks mats að komast að niðurstöðu. Hagsmunir kunna að vera ríkari að semja en fara með málið fyrir dómstóla jafnvel þó að menn viti að það séu full rök fyrir því að leysa málið fyrir dómstólum. Það er fráleitt af þeim sem koma hingað núna og stilla okkur í Sjálfstæðisflokknum upp og segja: Við krefjumst þess að þið segið okkur hvort þið ætlið að styðja málið eða ekki. Það er einfaldlega ekki komið að því. Ég ítreka þetta og það er grundvallaratriði. Samningsskuldbindingarnar eru ekki fyrir hendi. Lagalegur réttur okkar Íslendinga er ótvíræður og út frá því hljótum við fyrst og fremst að ganga.

Þegar menn segja núna við okkur: Svarið þessu á þessari stundu. Hver verður afstaða Sjálfstæðisflokksins til þingmálsins sem hér liggur fyrir? Þá er svarið þetta: Við munum fara efnislega yfir málin. Það er furðulegt að það komi úr munni fulltrúa stjórnarliðsins að þeir segja: Nú skuluð þið, hálfum sólarhring eftir að málið er lagt fram á Alþingi, svara því veskú með hvaða hætti þið ætlið að greiða atkvæði. Ég veit að það bögglast ekki fyrir stjórnarliðinu. Það var tilbúið til þess strax um mitt ár 2009 að samþykkja þetta mál. Þeir þurftu ekki einu sinni að sjá samninginn. Þeir þurftu ekki að lesa hann. Það átti að dylja okkur alþingismenn þessum samningi. Við áttum ekki að fá að vita hvað í honum stóð. Samt var hér haugur af fólki sem var tilbúinn til að samþykkja samninginn óséðan og ólesinn. Það kemur núna og segir: Við viljum fá svar á þessari stundu um afstöðu manna til þessa mikla máls. Vitaskuld gengur þetta ekki þannig fyrir sig.

Því hefur verið haldið fram að við Íslendingar höfum tapað á því að tefja málið. Stjórnarliðar höfðu stór orð uppi um það að við værum að tefja málið með málþófi. Málþófið væri óþarft og væri þinginu til skammar. Sannarlega bitu þessi rök úti í þjóðfélaginu, það urðum við vör við. Hinir svokölluðu álitsgjafar sem sífellt lúta í duftið voru tilbúnir að taka undir þetta að einhverju leyti og bergmála þetta úti í þjóðfélaginu. En er það þannig? Höfum við tapað á tölunni? Það sem blasir við okkur núna er að við erum með 10 sinnum betri samning en lagðir voru fyrir okkur á árinu 2009. Er þá hægt að halda því fram að við höfum tapað? Þá segja menn: Jú, það er alls konar annað óbeint tap. Hvað eftir annað hefur verið gengið eftir því og spurt: Í hverju felst þetta tap þjóðarinnar? Í hverju felst þetta tap atvinnulífsins? Er það þannig? Enginn hefur getað bent á áþreifanleg dæmi um þetta.

Við sáum fyrir skömmu að eitt af okkar glæsilegustu fyrirtækjum Marel endurfjármagnaði starfsemi sína og gerði það á vöxtum sem voru lægri en vextirnir sem okkur Íslendingum bjóðast á erlendri grundu. Það er alveg fráleitt mál að við séum að tapa á þessari töf. Þvert á móti hefur íslenska þjóðin stórgrætt á því að ríkisstjórnin náði ekki sínu fram varðandi þessa samninga.

Það er líka furðulegt að það komi úr munni þingmanna sem styðja núverandi ríkisstjórn að þeir segja að með því að samþykkja ekki Icesave sé verið að tefja alls konar atvinnuuppbyggingu í landinu. Höfum við orðið vör við að þessi ríkisstjórn hafi yfir höfuð áhuga á nokkurri atvinnuuppbyggingu í landinu. Hvað gerist í hvert einasta skipti sem örlar á því að menn sýna tilburði til þess að fjárfesta? Ég tala ekki um ef það er erlend fjárfesting. Ég tala ekki um ef það er fjárfesting í einhverjum atvinnugreinum sem þessum háu herrum eru ekki þóknanlegar. Það er alltaf brugðist við með sama hætti. Það eru ekki lagðir steinar í götu þessara fjárfestinga. Það er sturtað heilu grjóthrúgunum í veg fyrir þessar fjárfestingar. Nú sjáum við nýjasta dæmið. Hér er barist blóðugri baráttu fyrir því að reyna að koma á gagnaverum í landinu sem átti einu sinni að vera svarið við álverunum og þá allt í einu vaknar upp furðuleg afstaða öfgaaflanna sem vilja líka leggja grjóthrúgur í götu gagnaveranna og voga sér síðan að tala um að það sé Icesave sem valdi vandanum. Það er ekki Icesave sem tefur fyrir uppbyggingu stóriðjunnar. Það er ekki Icesave sem tefur fyrir uppbyggingu gagnaveranna. Það er ekki Icesave sem veldur helkulda í fjárfestingum í sjávarútvegi. Það er ríkisstjórnin. Vandamálið er ekki Icesave. Vandamálið er ríkisstjórnin.

Hæstv. fjármálaráðherra kvartaði undan því þegar þessi mál komu fram að nýju, núna fyrir nokkrum dögum, að það væri ósanngjarnt að bera þetta saman við það sem gerðist í fortíðinni. Ég spyr bara, ósanngjarnt gagnvart hverjum? Það er kannski ósanngjarnt gagnvart ríkisstjórninni sem hefur allt niður um sig í þessum málum. En það er hins vegar nauðsynlegt að bera þetta saman vegna þess að við þurfum að sjá heildarsamhengi málsins. Ég skil það vel að hæstv. ríkisstjórn kveinki sér undan því að það sé rifjað upp sem gerðist í fortíðinni í þessu máli svo gróflegt og dapurlegt sem það var. Ég ætla að rifja upp þrjá hluti í lok ræðu minnar.

1. Bara sú ákvörðun að skuldbinda okkur yfir höfuð upp á 400–500 milljarða kr. eins og gert var samkvæmt útreikningum fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er grafalvarlegur hlutur. Sérstaklega í ljósi þess að það voru engar lagalegar skuldbindingar þessu til grundvallar.

2. Hæstv. fjármálaráðherra kom fræga ferð í þinghúsið og lýsti því yfir tveimur dögum áður en Icesave-samkomulagið kom fullbúið inn í þingið að það væru engar formlegar viðræður í gangi. Ég ætla ekki að segja að hæstv. ráðherra hafi verið að skrökva en með þessari yfirlýsingu var hæstv. ráðherra hins vegar ótvírætt að afvegaleiða þingið. Það var að vísu ekki svo að það væru formlegar viðræður í gangi en það voru greinilega bullandi viðræður í gangi. Málið var komið svo langt að það var nánast tilbúið.

3. Hæstv. fjármálaráðherra gerði það sem bannað er samkvæmt stjórnarskránni. Hann skuldbatt ríkissjóð og ekki upp á neinar smáupphæðir heldur upp á 500 milljarða kr. eða þar um bil, vitandi vits um að það væri minni hluti Alþingis sem styddi þetta. Stjórnarskráin segir að enginn geti veitt slíkar skuldbindingar nema Alþingi og hæstv. ráðherra fór gjörsamlega og algerlega á svig við stjórnarskrána í þessum efnum. Það er mál sem verður rifjað upp aftur og aftur vegna þess að eitt af því sem hæstv. ráðherra getur ekki vikið sér frá (Forseti hringir.) er fortíðin og þessi grafalvarlega staðreynd að hann fór á svig við stjórnarskrána.